Framundan er hörð baráttu hjá mfl. karla í knattspyrnu í toppslag Pepsí-deildarinnar. Liðið hefur sýnt það að á góðum degi er geta þess nægjanleg til að sigra öll lið í deildinni. Hins vegar hefur liðið átt misjafna leiki inn á milli og þá hafa tapast dýrmæt stig í toppbaráttunni. Hér eftir má ekkert slíkt gerast ef við ætlum að eiga möguleika á því að sjá hvítklædda liðsmenn okkar hampa titlinum frekar en þá röndóttu.
sjá meira
Á sunnudag er einn af mörgum lykilleikjum liðsins þegar Valsmenn koma á Hásteinsvöll, staðráðnir í að hefna ófara sinna í leikjum sumarsins gegn ÍBV. Þá verða leikmenn ÍBV að standa í lappirnar og ná upp þeirri baráttu og krafti sem þeir eru þekktir fyrir sem og því lipra samspili sem liðið er orðið þekkt fyrir. Hins vegar á ÍBV að eiga 12. og 13. liðsmanninn í okkur stuðningsmönnunum sem munum fjölmenna á leikinn á sunnudag. Til að við skilum okkar þá þurfum við að hvetja liðið betur en við höfum gert þ.e. að láta betur í okkur heyra, hvetja liðið í mótbyr sem velgengni og búa til þetta vígi sem Hásteinsvöllur er þekktur fyrir. Ég legg til að við fjölmennum öll á pallana norðan megin við Hásteinsvöll og hvetjum og syngjum frá fyrstu mínútu leiksins og jafnvel byrjum í upphituninni. Við vitum hverju þetta hefur skilað í leikjum liðsins á útivöllum og nú tel ég vert að gera þetta hér heima við. Ég ætla að minnsta kosti að fara af mínum stað við girðinguna og mæta á pallana og hvetja liðið þar.
Stjórn knattspyrnudeildar þarf að tryggja að tónlistarmenn verði til staðar til að slá taktinn og halda uppi fjörinu. Stórir fánar o.fl. slíkt gera stemminguna enn meiri sem skilar sér beint í adrenalín leikmanna okkar inni á vellinum. Hver man ekki eftir Blikaleiknum í fyrra á Kópavogsvelli, Hásteinsvelli 1997 gegn Keflavík, KR-völlurinn 1998, þvílíkar sælustundir.
Nú gefum við tóninn Eyjamenn og höldum honum í öllum þeim leikjum sem eftir eru á þessu tímabili. Hásteinsvöllur er og verður okkar vígi aðeins ef við sjáum til þess.
Í lokin vil ég óska Eið Aron Sigurbjörnssyni til hamingju með það stóra skref sem hann er að taka á sínum knattspyrnuferli. Hans verður sárt saknað en ég er ánægður að sjá hvernig hann talar um félagið sitt og það að hann muni koma aftur til okkar. Það verður erfitt að fylla hans skarð en í liðinu er menn sem ég treysti til þess eins og Brynjar Gauti, Andri Ólafs og Kelvin Mellor. ÍBV hefur áður staðið í þeim sporum að missa einn sinn traustasta liðsmann en endurskipulagt sitt lið vel og skilað titli í hús í lok tímabils. Ég trúi því að ÍBV eigi þá möguleika á þessu tímabili.
Komum fagnandi á sunnudag og áfram ÍBV alltaf og alls staðar.
Ingi Sigurðsson
fyrrverandi leikmaður ÍBV