IBV heldur toppsætinu.

16.jún.2011  11:34
Stúlkurnar okkar gerðu í gær markalaust jafntefli gegn KR í Frostaskjólinu.  Leikurinn byrjaði með sókn IBV sem stóð nánast allan fyrri hálfleik.  IBV skapaði sér mörg mjög góð marktækifæri en inn vildi boltinn ekki.  Vendipunktur fyrri hálfleiks var þegar Kristín Erna slapp í gegn en markvörður KR handlék knöttinn fyrir utan teig og átti að sjálfsögðu að fá rautt spjald fyrir en slapp með gult.  Í seinni hálfleik hélt IBV áfram að skapa sér færi en um miðjan hálfleikinn fengu KR stúlkur dæmda vítaspyrnu án þess að biðja um það en dapur dómari leiksins virtist sjá eitthvað athugavert.  Birna Berg sem haldið hefur marki sínu hreinu til þessa gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna.  Markalaust jafntefli í nokkuð fjörugum leik því staðreynd.
Á laugardag leika stúlkurnar í bikarnum hér á heimavelli gegn Völsungi frá Húsavík og hefst leikurinn kl. 14.00  Leikurinn verður í boði Vélsmiðjunnar Þórs og því frítt á leikinn fyrir stuðningsmenn.
Við hvetjum alla til að mæta og hvetja stúlkurnar til sigurs.
 
Áfram IBV