Þeir eru fáir sem myndu mótmæla þeirri fullyrðingu að Hásteinsvöllur er einn besti knattspyrnuvöllur landsins. Völlurinn hefur verið sá besti á vorin undanfarin ár og sá völlur sem haldist hefur hvað best yfir sumarið. Stemmninginn á vellinum oft frábær og fræg íhaldssemi stuðningsmanna varðandi staðsetningu þeirra á vellinum fræg. Hólsarar eru frægir meðal knattspyrnuunnenda og enginn línuvörður í efstu deild kemst hjá því að heyra glósur frá þeim sem staðsetja sig hjá auglýsingaskiltunum sunnan megin. Og síðustu ár hafa áhorfendur sem sátu í brekkunni norðan megin tekið ástfóstri við ákveðin sæti í áhorfendastæðunum sem byggð voru fyrir Evrópuleik ÍBV fyrir nokkrum árum.
Hvers vegna þá þessi umræða um nýja stúku?
Það hefur legið fyrir í mörg ár að nauðsynlegt er að bæta aðstöðu fyrir áhorfendur á Hásteinsvelli. Mikið hefur verið lagt upp með það í leyfiskerfi KSÍ sem samþykkt hefur verið ár eftir ár á ársfundi sambandsins að bæta áhorfendaaðstöðu á völlum hér á landi. Við höfum séð félög bregðast við þessum auknu kröfum síðustu ár. Flest félög í efstu deild hafa nú staðist þær kröfur sem gerðar eru til félaga í fremstu röð hér á landi. Við sjáum myndarleg mannvirki við alla helstu velli hér á landi. ÍBV er aðili að KSÍ og því verður félagið að lúta þeim reglum sem sett eru af sambandinu.
Sitt sýnist hverjum um kröfurnar en eitt getum við ekki sagt og það er að þetta komi okkur á óvart. ÍBV hefur verið á undanþágu undanfarin ár en nú er ljóst að ef ekki verður bætt úr verður Hásteinsvöllur ekki heimavöllur ÍBV á næsta ári. Það er hægt að taka þá umræðu hvort sanngjarnt sé að KSÍ sé að setja þessar byrðar og kröfur á félög en það breytir ekki þeirri staðreynd að kröfurnar eru til staðar og Vestmannaeyjar hafa haft nokkur ár til að bregðast við en ekkert hefur gerst.
Það er þykkur doðrantur af reglum sem hvert félag þarf að uppfylla ár hvert til að fá keppnisleyfi hjá KSÍ. Reglur um vallarmál er aðeins einn kafli í þeirri bók. Frá lok síðasta tímabils hefur framkvæmdastjóri ásamt stjórn félagsins unnið að því að uppfylla þau skilyrði sem sett eru. Vallarmál er það eina sem stjórn félagsins hefur ekki í valdi sínu að uppfylla, enda völlurinn í eigu Vestmannaeyjabæjar.
KSÍ sýndi í verki síðasta sumar að sambandið ætlar sér að framfylgja þessum reglum. Lið Hauka var gert að spila sína heimaleiki á öðrum velli en sínum eigin þar sem sú aðstaða sem í boði var á Ásvöllum þótti ekki nægjanlega góð fyrir leiki í efstu deild. Það liggur fyrir að ÍBV fékk undanþágu út þetta tímabil en til þess að félagið geti spilað áfram hér í Eyjum á næsta tímabili þarf að liggja fyrir og byrjað á stúkubyggingu sem uppfyllir þau skilyrði sem sett eru. Stúkan þarf að hýsa 750 áhorfendur og helmingurinn af því þarf að vera með þaki.
Umræðan um ÍBV þarf að breytast hér í Eyjum. Það er ekki hægt að líta á ÍBV sem einhverja þiggjendur hér í bæ. ÍBV er einn öflugasti ferðaþjónustuaðili hér í bæ og hingað koma mörg þúsund manns ár hvert vegna viðburða sem félagið stendur fyrir. Ef ÍBV stæði ekki fyrir þessum viðburðum þá myndu margir hér í Eyjum missa af miklum tekjum. Hvort sem um er að ræða Þjóðhátíð, Shellmót, Pæjumót, þrettándagleði eða túrneringar yngri flokka. Í raun væri nauðsynlegt fyrir félagið að láta vinna úttekt um áhrif ÍBV í þessum efnum hér í bæ eins og stóð til fyrir nokkrum árum en ekkert varð úr.
ÍBV er mikilvægur hlekkur í því bæjarfélagi sem við búum í. Ég efast um að mörg félög hér á landi hafi eins mikil áhrif á sitt nærsvæði eins og ÍBV. Þess vegna verður að nálgast umræðu um félagið og nauðsynlegar umbætur í kringum svæðið á þeim nótum.
Með tilkomu Landeyjahafnar sem við vonum að verði farsæl samgöngubót þegar fram í sækir má búast við að fleiri áhorfendur fylgi aðkomuliðinu á hvern leik á Hásteinsvelli. Það er lyftistöng, ekki bara fyrir ÍBV heldur bæjarfélagið í heild sinni.
Spyrjum okkur því hvernig við getum leyst málið. Hvernig getum við uppfyllt þau skilyrði sem sett eru. Á að ráðast í nýja stúku sunnan megin við völlinn og fara þá í svipaða byggingu og nágrannar okkar á Selfossi gerðu? Með búningsaðstöðu undir stúkunni. Eða byggja við og yfir hluta af áhorfendastæðunum norðan megin? Lykilatriðið í því hlýtur að vera að leysa málið til frambúðar. Ekki tjalda til einnar nætur í þessum efnum.
Sigursveinn Þórðarson