Ársþing Íþróttabandalags Vestmannaeyja hvetur Alþingi og Ríkisstjórn að standa vörð um ferðasjóð íþróttafélaga þannig að 90 milljónir verði til ráðstöfunar fyrir árið 2012 eins og fyrirheit höfðu verið gefin um. Jafnframt að framlög verði hækkuð í 200 milljónir í áföngum og því markmiði náð ekki síðar en árið 2015. Þetta kemur fram í ályktun, sem samþykkt var á þinginu en eins og allir vita, eru fá íþróttafélög sem verða að eyða jafn miklum fjármunum í ferðakostnað og ÍBV. Greinargerð ályktunarinnar má lesa með því að smella á meira.
Engin sem starfar innan íþróttahreyfingarinnar velkist í vafa um mikilvægi þess að ferðakostnaður íþróttafélaga verði jafnaður sem kostur er. Sá áfangi sem náðist með stofnun ferðasjóðsins er afar mikilvægur íþróttahreyfingunni í Eyjum og allra leiða verður að leita, til að tryggja framtíð hans. Með samþykkt þessarar ályktunar ársþings Íþróttabandalags Vestmannaeyja er ráðamönnum þjóðarinnar enn frekar bent á mikilvægi hans og þess að hann verði ennfrekar efldur og eins fyrirheit hafa verið gefin um.