Ég man meik-drauma...

05.apr.2011  12:57

-Séra Guðmundur Örn Jónsson skrifar

Ég man að ég átti mér þann draum að slá í gegn í hljómsveitarbransanum þegar ég var peyji fyri norðan. Nokkrir eldri töffarar höfðu stofnað hljómsveit í skólanum og fengu aðstöðu í bílskúrnum hjá skólastjóranum. Við sem vorum yngri höfðum aldrei séð aðra eins töffara og þessa höfðingja og flestir einsettu sér að slá jafn rækilega í gegn og töffararnir, sem náðu reyndar aldrei eyrum annarra en nemenda Stórutjarnarskóla, en þar var auðvitað miðju alheimsins að finna í okkar huga.
Það fór nú reyndar aldrei svo að ég ætti sæti í hljómsveit á grunnskólaárunum, en það átti nú heldur betur eftir að breytast þegar ég flutti til Akureyrar og hóf nám í Verkmenntaskólanum.
Þar sótti ég tónleika af mikilli áfergju og dreymdi alltaf um stað uppá sviði þar sem ég myndi að sjálfsögðu dáleiða salinn með geggjaðri sviðsframkomu og framúrstefnulegum pönkslögurum.
 
Svo eitt kvöldið þar sem ég sat heima í makindum mínum og velti fyrir mér meik-draumum í bransanum, þá stóðu þrír töffarar í dyragættinni í kytrunni sem ég bjó í ásamt Arnari frænda, sem alltaf var síspilandi um allar jarðir. Þessir þremenningar voru að leyta eftir raddböndum í hljómsveit sem þeir voru að koma á fót, og datt sí svona í hug að ég hefði áhuga á að taka að mér hlutverk aðalsöngvara í pönk-rokk hljómsveit.
 
Ég hélt það nú, og við tóku æfingar í kjallara Verkmenntaskólans. En fljótlega kom upp alvarlegur tónlistarlegur ágreiningur innan bandsins. Þessir svokölluðu töffarar vildu bara æfa og æfa eins og enginn væri morgundagurinn, og svo kom líka í ljós að þeir voru ekki sömu pönk-rokkararnir og þeir höfðu talið mér trú um. Mér fanns hins vegar ekki skipta svo miklu að æfa og átti það til að rjúka af æfingu í fússi þegar útsetningar laga tóku að hljóma. Það kom sem sagt í ljós að þeir vildu vanda sig og voru ekki afhuga einhverju ballöðu væli og hugmyndir komu meira að segja upp um að bæta við hljómborðsleikara í bandið svo ná mætti fram meiri dramatík í músíkina.
 
Þetta var of mikið fyrir mig og ég hótaði þeim að ég myndi hætta í bandinu ef þeir tækju ekki sönsum. Svo rauk ég út og heim, og taldi félaga mína vera í heldur vondum málum. Því næst tók við bið við símann eftir því að þeir myndu hafa samband og lofa bót og betrun, og ég taldi mér trú um að þeir myndu koma fullir yðrunar vegna framferðis síns.
En það var nú eitthvað annað. Það næsta sem ég frétti af fyrrum hljómsveitarfélögum er að þeir taka þátt í hljómsveitarkeppni, án mín.... og vinna!
Ég var algjörlega eyðilagður yfir þessum fréttum og ákvað að öllum hljómsveitar-meikdraumum yrði ekki fylgt eftir héðan í frá.
 
All nokkru síðar hitti ég einn hinna gömlu hljómsveitarfélaga og við tókum tal saman um heima og geyma og ég spyr svona í rælni hvað gerst hafi í meik málum eftir sigurinn í hljómsveitarkeppninni forðum. Og þá kom í ljós að þeir höfðu engin frekari afrek unnið í bransanum, og reyndar flosnaði bandið fljótlega upp eftir sigurinn. Einhver fór á sjóinn, annar varð rafvirki og einn var meira og minna búinn að eyða tíma sínum inná Litla-Hrauni.
 
Það kom þessum gamla félaga mínum óneitanlega á óvart að ég væri orðinn prestur, en hann var fljótur að koma auga á hið augljósa: “Þú ert sá eini sem hefur látið draumana rætast” sagði hann og ég leit á hann í forundran og skildi hvorki upp né niður og minntist þess ekki að ég hefði talað um það við þessa gömlu félaga að ég ætlaði mér að verða prestur. En jú: “á meðan við flosnuðum allir upp úr bransanum, þá syngur þú einsöng á hverjum sunnudegi.”
Svona getur lífið komið manni skemmtilega á óvart og tekið algjörlega óvænta stefnu og draumar ræst án þess að maður geri sér jafnvel grein fyrir því sjálfur.
 
Guðmundur Örn Jónsson