Ég man ferðalög

02.mar.2011  10:49

-Séra Guðmundur Örn skrifar

Ég man að þegar heyskapi var lokið var öllum helstu nauðsynjum pakkað inní Rússajeppann hans afa og land lagt undir fót.  Í þessum reisum var oftar en ekki gjarnan komið við á stöðum sem voru ekki í alfaraleið og myndu seint teljast til hefðbundinna ferðamannastaða, þó vissulega hafi hefðbundnir áfangastaðir líka verið sóttir heim.  Á þessu flakki vorum við oftast fjögur; ég og Arnar frændi, afi og amma, þó einhverntíman hafi frænka mín og hennar maður bæst við.
Í þessum ferðum var alveg ljóst hver það var sem sat við stjórnvölinn - afi.  Enda alveg rökrétt þar sem það var jú hann sem keyrði og hafði þess vegna mest um það að segja hvaða stefnu bílinn tók.   En málið var samt að afi var skemmtilegur fararstjóri, var forvitinn um land og þjóð og var ófeiminn við að leggja útaf þægindum þjóðvegarins og þræða fáfarna sveitavegi, hvort heldur var fyrir vestan, austan, sunnan eða norðan.
 
Í þessum ferðum vílaði afi það ekki fyrir sér að stoppa heimamenn þar sem til þeirra náðist til að forvitnast um sveitina, fólkið úr héraðinu, lífs eða liðið og um skoðanir heimamanna á þeim málum sem hæst bar þá og þá stundina.  Það merkilega var að afi kom eins fram við allt þetta fólk, hvort heldur við rákumst á alþingismann í einhverjum eyðidalnum sem var staddur þar til að forðast skarkala fjölmiðla jafnvel eftir einhvern skandal eða einbúa sem varla hitti annað fólk nema helst þegar farið var með fé til slátrunar á haustin.  Það var sama hver viðmælandinn var alltaf var afi jafn áhugasamur um hagi þeirra sem á vegi okkar urðu.  Þingmaðurinn var þá jafnvel krafinn um útskýringar vegna háttalgs síns og málum velt fram og til baka og einsetumaðurinn spurður um álit á málefnum dagsins, sem hann hafði jafnvel ekki heyrt af og þurfti því að fá nokkurs konar útdrátt á öllu því helsta sem var að gerast í þjóðlífinu.
 
En hvað um það í einu þessara ferðalaga var meðal annars ákveðið að kíkja aðeins á hernámssvæðið á Miðnesheiði.  Þegar við komum að hliðinu inná svæðið, þá er ætlast til þess að allir sem leið eiga inná svæðið stoppi þar og geri örlitla grein fyrir sér og ferðum sínum.  En afi sá svo sem ekki neina sérstaka ástæðu til þess að stoppa heldur keyrði beina leið framhjá veifandi vörðum og við veifuðum raunar bara á móti að frumkvæði afa.  Svo var tekinn örlítill rúntur um svæðið og orð haft á því hversu lítið væri hér að sjá og best væri að drífa sig til baka.
 
Ég skal alveg játa það að mér leist ekkert allt of vel á blikuna, því ég var nokkuð viss um að þessir heiðursmenn sem stóðu við hliðið og veifuðu okkur þegar við brunuðum inná bandarískt yfirráðasvæði á Rússajeppa, hefðu ekki bara verið að bjóða góðan dag, eins og afi vildi reyndar halda fram.  Enda væri það alveg frámunalega vitlaust að einhverjir Bandaríkjamenn ætluðu sér að stoppa Íslendinga sem væru að ferðast um landið sitt.  Þannig að þegar afi ákvað að nóg væri skoðað og við skildum snúa til baka var ég eiginlega feginn, enda var ég hálfstressaður yfir því að við skyldum hálfpartinn hafa stolist inná svæðið.
 
Þegar við keyrum til baka þá komum við að sjálfsögðu aftur að þessu hliði, en nú bregður svo við að fleiri menn standa þar en þegar við komum inn og veifuðu heldur ákafar en í fyrra skiptið og ég er ekki frá því að byssum hafi verið haldið á lofti.  Og alveg á sama hátt og þegar við keyrðum inná svæðið, þá veifaði afi, og sagði okkur að veifa líka.  Og svo hélt ferðalagið áfram og mig minnir að við höfum gist á einhverjum bóndabæ á suðurlandi hjá þremur háöldruðum systkynum.  Og ég sofnaði undir líflegum umræðum um horfur í sauðfjárrækt og fjallaleysi suðurlandsins.
 
Já það var alveg sama hverja við hittum á vegferð okkar um landið, alltaf tókst afa einhvernvegin að vera hann sjálfur og var alveg ófeiminn við að fara sína eigin leið á hringsóli okkar um landið, og þannig hefur það raunar verið í gegnum lífið, og það hlítur að vera eitt af markmiðum okkar í lífinu að tapa ekki sjálfum okkur, jafnvel þegar við stöndum andspænis erlendu yfirvaldi.
 
Guðmundur Örn Jónsson