Að passa sinn munn

22.feb.2011  09:01

-Helga Tryggva skrifar

„Nú fá þær að kenna á dómgæslu eins og hún er í Vestmannaeyjum!“
„Djö…. ruddar, þið kunnið ekki handbolta hálfv….“
Þessi orð heyrði ég frá áhorfanda á handboltaleik. Ekki hjá meistaraflokki, heldur 4. flokki kvenna hér um árið. Látum liggja milli hluta hvar og hvenær þessi orð voru látin falla. Það skiptir ekki máli, allir sem hafa farið á íþróttakeppnir vita að þetta er langt í frá einsdæmi. Sá sem sagði þetta hélt með hinu liðinu. Mér blöskraði og spurði viðkomandi hvort hann væri ekki mættur til að hvetja, hann varð hugsi eitt augnablik og sagði „jú, rétt hjá þér“ og brosti. Eftir á fór ég að hugsa hvernig ég hagaði mér á leikjum. Það kemur fyrir að ég missi mig af spenningi og get lofað ykkur að ég hef sagt eitt og annað sem er ekki það smekklegasta.
 
Í heimsókn í fyrsta bekk vorum við að ræða um að það sem við segjum getur sært hjartað og það á ekki að segja ljót orð. Einn lítill rétti upp hendina og sagði „þegar minn pabbi horfir á handbolta og fótbolta segir hann alltaf andskotans, helvítis“. Bekkjarsystir hans rétti upp sína litlu hendi í kjólfarið „pabbi minn líka“. Fyrir þessum yndislegu börnum var þetta mikið alvörumál og þau voru greinilega leið yfir þessum talsmáta heimilisfólksins. Þau voru líka með lausnina: Hver og einn á að passa sinn munn.

Síðustu árin höfum við í Grunnskólanum lagt fyrir könnun þar sem við skoðum ástand eineltismála. Meðal annars er spurt um hvers konar einelti nemendur verði fyrir. Efst á lista er alltaf: „Það er gert grín að mér, ég er uppnefndur eða mér strítt á óþægilegan og meiðandi hátt“. Hluta af hrópum og köllum frá áhorfendum getum við flokkað undir þetta. Ég get ekki ímyndað mér að það sé skemmtilegt fyrir þá sem leggja á sig að æfa og keppa að heyra niðrandi ummæli, uppnefni og alls kyns glósur um lélega frammistöðu eða hæfileika.

Ég gæti þó trúað að meirihluti þeirra orða sem falla frá áhorfendum séu jákvæð. En þau mættu örugglega vera fleiri á kostnað þeirra neikvæðu. Það er bara gaman að taka þátt í leiknum utan vallar, hverfa inn í stemninguna, hvetja og fagna eins og enginn sé morgundagurinn. Tökum krakkana í fyrsta bekk til fyrirmyndar og pössum okkar eigin munn. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.
Vertu jákvæða týpan, það er miklu skemmtilegra. 

 Áfram ÍBV!