Nokkur orð um Eimskipshöllina

18.feb.2011  08:09

-Tryggvi Már Sæmundsson skrifar

Nú þegar Eimskipshöllin er komin í fulla notkun er ekki úr vegi að líta á nýtingu á þessu mikla mannvirki. Ég hef fylgst vel með notkuninni á húsinu síðan það var tekið í notkun og satt best að segja átti ég ekki von á að nýtingin yrði sú er reyndin er. Nokkra daga vikunnar byrja unglingarnir í akademíu ÍBV og FÍV þar klukkan 6.30 og eru að í tæpa klukkustund.
Því næst fara eldri borgarar að týnast í göngutúra og er mikil ásókn hjá þeim í að nota húsið. Þau eru að koma til göngu frá klukkan 9 og til hádegis. Þá taka við hádegisæfingar hjá meistaraflokkunum í knattspyrnu. Eftir hádegið eru það svo yngstu flokkarnir sem mæta á æfingar og svo gengur það koll af kolli langt fram á kvöld. Allt til að ganga ellefu á kvöldin. Um helgar er húsið svo nýtt frá morgni til kvölds.

Þá má ekki gleyma því að mun rýmra er um allar aðrar greinar í öðrum sölum bæjarins og gerir það að verkum að allir fá betri tíma fyrir sýna iðkendur. Eimskipshöllin hefur á þessum síðustu vikum sannað að mikil þörf var á skjóli til ýmiskonar hreyfingar og vil ég því nota þetta tækifæri og óska Eyjamönnum til hamingju með að vera búnir að fá þetta hús til afnota.
 
Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags