Snýst ekki bara um hæfileikana

15.feb.2011  16:45

Margrét Lára Viðarsdóttir skrifar

Ég vil byrja á því að óska öllum Eyjamönnum innilega til hamingju með nýtt og glæsilegt knattspynuhús. Þetta er frábært fyrir unga sem aldna iðkendur og er ég ekki í vafa um að bandalagið muni vaxa gríðarlega á næstu árum. Mér finnst ekki svo langt síðan ég var að hefja minn feril á malarvellinum við Löngulá. Þar var æft að kappi allann veturinn á misgóðum vellinum.
Það var ekki í svo ófá skiptin sem hringt var í vallarvörðinn og hann beðinn um að koma og slétta úr vellinum. Slétta úr hverju? Jú slétta eða frekar hræra í mölinni. Okkur leikmönnunum fannst þetta náttla þvílíkur munur þegar búið var að fara yfir völlinn og mátti líkja honum við sjálfan Hásteinsvöll. Það þurfti þó ekki nema eina létta suðvestan átt og góða kviðu til að feykja allri mölinni út um allt eða jafnvel af vellinum. Þetta voru góðir tímar og eru minningarnar ekkert nema góðar og skemmtilegar af annars einstökum velli.
 
Það er ótrúlegt en satt að ég get miðað þær vetraraðstæður sem ég æfi við í dag sem atvinnumaður í knattspyrnu mikið við þær sem ég ólst upp í. Við æfum úti á gervigrasi sem er kannski ekki það sama og mölin en frosið gervigras miðað við mjúka mölina er ekki svo ýkja ólíkt. Svo er alltaf hægt að deila um það hvort að vindhraði eða -15 gráður séu betri. Svíar eru ekkert sérstaklega nýjungagjarnir og þrátt fyrir kaldan, harðan en stuttan vetur þá eru þeir alveg á því að það sé algjörlega óþarfi að hita vellina, hvað þá að skafa þá ef það kemur snjór. Ég væri að ljúga ef ég segði að Svíar væru eyðslusamir og pössuðu ekki upp á hverja krónu.

Ef ég ætti að lýsa félaginu mínu og bænum mínum Kristianstad í einu orði myndi það vera ,,krúttlegt/krúttlegur”. Þetta er einkar fámennur bær miðað við sænska bæi. Búa ekki nema um 60.000 manns hérna og allir þekkja alla. Fólkið hérna er einkar vinalegt og er maður ekki nema 5 mín milli staða. Ég er sko að tala um Kristianstad ekki Vestmannaeyjar. En það er rétt samfélagið hér er nauðalíkt eyjunni okkar fögru.
 
Undirbúningstímabilið er hafið og erum við að æfa allt upp í 8-10 sinnum í viku. Mikið álag þessa dagana, langar og erfiðar æfingar en það sem er einmitt eitt það skemmtilegasta við fótboltann er að hlaupa út á ilmandi grasvöllinn í byrjun apríl í 15 – 20 gráðum í frábæru formi og með sjálfstruastið í botni. Það er víst þannig að það geta allir verið í góðu formi óháð hæfileikum eða getu. Því er það eitt af okkar aðalmarkmiðum að vera í besta formi allra liða í deildinni því það er ótrúlegt hvað það eitt og sér getur komið bæði liðum og leikmönnum langt. Þetta snýst jú ekki bara um hæfileikana.
 
Margrét Lára er einn af fastapennum heimasíðu ÍBV-íþróttafélags.