Rós í hnappagatið?

10.feb.2011  08:47

-Gísli Hjartarson skrifar

Loksins hefur nú blessað knattspyrnuhúsið opnað. Frábær viðbót í flóruna til íþróttaiðkunnar hér í Eyjum. Ég var nú einn af þeim sem hvað mest tuðuðu um þetta í upphafi og finnst þetta því löngu tímabært. Fannst umræðan sem hér fór á flug um húsið afar sorgleg enda misstu menn sig umvörpum í hugsanlegri nafnagift á húsið en ekki þeim ávinningi sem hægt er að hafa af húsinu.

 
Það er ekki ofsögum sagt að um mann fari nett öfundartilfinning þegar maður labbar inn í húsið og sér þá aðstöðu sem þarna er fyrir áhugasama. Held að engum sem þarna kemur inn detti í hug annað en að þetta sé til bóta fyrir iðkendur íþrótta. Fótboltinn er nú sennilega sú íþrótt sem þarna fær mestan byr – í logni samt. En því má ekki gleyma að menn voru nokkuð skynsamir og létu í leiðinni búa þarna til smá aðstöðu fyrir iðkendur frjálsra íþrótta. Ekki að það séu bestu aðstæður sem þekkjast en engu að síður frábært stökk fram á við – eiginlega þrístökk -  og sennilega mesta bót sem frjálsar íþróttir hafa fengið frá því að malarvöllurinn var vígður á sínum tíma – 1957. Er viss um að krakkarnir í frjálsum hafa fagnað þessu. Þarna er hægt með smá tilbúnaði að koma upp æfingaaðstöðu fyrir golfáhugamenn til að slá í bolta að vetri til,  þegar veður eru slæm hér í Eyjum, já eða snjór yfir öllu. Nærtækasta dæmið sem ég hef þó í þessu er að karl faðir minn sem ekki var nú altaf alveg viss um hvort menn væru að gera eitthvað gott með þessari byggingu er farinn að fara þarna á daginn og fá sér göngutúra. Það er enn ein snilldin við þetta hús, hægt er að leyfa fólk fara þarna og ganga sér til heilsubótar sama hvernig veðrið er því eins og við vitum þá hentar ekki öllum að berjast alltaf við þær aðstæður sem boðið er upp á utandyra þegar kemur að því að hreyfa skankana og fá ferskt loft í lungun.
 
En húsið er ekki bara æfinga það er líka keppnis, og þá fyrir yngstu flokkana í fótboltanum. Þarna er hægt að stunda kappleiki gott fólk!! Fá jafnvel lið í heimsókn yfir vetrarmánuðina til æfinga og keppni, slíkt skilar sér ekki aðeins í aukinni ánægju iðkenda heldur líka í bæjarkassann á einn eða annan hátt, því þessa hópa þarf að fæða og klæða.
 
En það er ekki nóg að fá þak yfir höfuðið til að vera góður í íþróttum. Félagið sjálft má ekki gleyma sér í doðanum yfir því að aðstaðan hafi tekið svona framförum. Þjálfarar  þurfa líka að vera á tánum og nýta þessa nýju aðstöðu sem býðst, vera opnir fyrir nýjungum sem aldrei fyrr. Það þarf að æfa nú jafnt sem áður. Jafnvel hægt að æfa meira þegar aðstaðan er orðin svona. Var einmitt að tala við Hemma Hreiðars um daginn og okkur bar saman um að sú kynslóð sem nú er að koma upp hjá félögum núna,  sem hafa haft þessi hús megnið af sínum ferli, eru með meiri tækni en gömlu lurkarnir sem oftast nær þurftu að berjast bæði við veðrið og andstæðinginn allan veturinn. Svona hús gefa gott svigrúm til að bæta tæknilegu hliðina, eitthvað sem oft hefur verið talað um að vanti hjá íslenskum knattspyrnumönnum. Það er hægt að fara að einbeita sér að boltanum. Það þarf ekki að vera jafnvel að berjast við að halda húfunni á höfðinu, halla rétt upp í vindinn og reyna að reikna út hvert vindurinn muni feykja boltanum, þegar búið er að senda í áttina að manni. Menn sjá ekki allt í einu í einni hviðunni á eftir öllum boltunum á fleygiferð í áttina að Kirkjuveginum, akkúrat þegar það átti að fara að æfa fyrirgjafir. Já eða að þurfa að snúa sér undan þegar malarvellinum dettur allt í einu í hug að hugsa sér til hreyfings og æða af stað annað hvort í augun á manni eða upp Höfðaveginn. Ég veit að þeir sem hafa æft við þessar aðstæður skilja hvað ég er að fara og brosa eflaust þegar æfingar af malarvellinum rifjast upp.
 
Þegar rætt er um knattspyrnuhúsið er ekki hægt að sleppa því að minnast á þetta hér. Ég heyrði frá konu í Kópavogi sem borgar æfingagjöld fyrir fótbolta hjá Breiðablik upp á 35 þús kr., fyrir tímabilið janúar til júní – já 6 mánuði -.
Hjá ÍBV-íþróttafélagi er ársgjaldið kr. 36.000,- Fyrir fyrsta barn. Kr. 60.000 ef þau eru tvö og kr. 72.000 fyrir 3 börn. Þarna er um að ræða fótbolta og handbolta, búningur er svo innifalinn annað hvert ár. Ef að það að leyfa félaginu að gefa nýja húsinu nafn hjálpar til við að geta boðið upp á svona mikið ódýrari æfingagjöld en þekkist annarsstaðar þá ber að þakka bæjaryfirvöldum fyrir þá heimild. Ekki má heldur gleyma að þakka þeim er vilja ljá húsinu nafn sitt.  Eyjamenn til hamingju með Eimskipshöllina.
 
Gísli Hjartarson.
 
 
Gísli er einn af fjórum fastapennum ÍBV síðunnar.