Ég man í Bárðardal...

01.feb.2011  09:35

Séra Guðmundur Örn skrifar

Ég man að í Bárðardal, sem er næsti dalur austan við fallegasta dal landsins, Fnjóskadal, flutti einu sinni maður sem var hinn mesti búskussi.  Hann mjólkaði kýrnar þegar honum hentaði, rak féið ekki fjall, heldur sleppti því niður á veg, stóð í slætti langt fram eftir hausti, stundum þegar allt var komið á kaf í snjó.  Stóð sig hvorki í stykkinu sem faðir eða eiginmaður, lág í drykkju alla daga og var ofbeldisfullur á sveitasamkomum.  Sem sagt nánast ómögulegur á öllum sviðum.
Á næsta bæ við þennan snilling bjó líklega orðvarasti maður sem sögur fara af norðan Alpafjalla, gæðablóð í gegn og fyrirmyndarbóndi og raunar til fyrirmyndar í öllum málum, og hafði þann eiginleika að sjá eitthvað gott í öllu fólki.
Búskussinn hafði það fyrir vana að leggja land undir fót þegar hann hafði fengið sér í hælinn eins og hann var vanur að segja sjálfu (sem er líklega svona mitt á milli þess að fá sér í tána og að vera á rassgatinu).
Gallinn var hins vegar sá að hann fór oftast nær á bílnum í þessa túra sína og var að sjálfsögðu engan vegin í ástandi til þess að aka, og því fór það æði oft svo að hann endaði reisu sína á heimili fyrirmyndabóndans, sem fann ævinlega til samfélagslegrar ábyrgðar sinnar þegar okkar maður birtist og tók umsvifalaust bíllyklana í sína vörslu en á móti koma að þá sat hann gjarnan uppi með nágranna sinn sem staldraði við lengi dags, og reyndar nætur líka, sagði sögur, en hann gat svo sannarlega sagt skemmtilega frá og kunni að koma orðum að hlutunum.  Söng og grét og hlóg, þangað til hann lognaðist útaf og hafði sig síðan heim morguninn eftir í öllu betra ástandi til að keyra.
 
Einhverntíman hitti ég hinn orðvara og góða bónda á skemmtun í sveitinni, líklega þorrablóti eða einhverri álíka skemmtun, það var að minnsta kosti búið að henda búskussanum út af samkomunni eftir að hann hafði danglað hendinni í grandalausan eldri mann sem hafði gert sig líklegan til þess að stíga dansinn við eiginkonu skussans eftir að hringdansi lauk.  En alla vegana þá spurði ég þennan fyrirmyndar bónda að því hvernig samskiptin gengju við nágrannann.  Hvort hann væri ekki alveg hræðilegur vargur.  Ég hafði auðvitað heyrt ýmsar sögur og langaði svona að heyra hvað hann hefði til málanna að leggja.
Áður en hann svaraði, þá þagði hann í drykklanga stund, svona eins og hann vissi ekki almenninlega hvernig hann ætti að svara mér, eða hvort hann ætti yfir höfuð að svara þessari spurningu.  Ég hélt kannski að honum þætti svarið liggja í augum uppi og ætlaði þess vegna að láta sem hann þyrfti ekki að svara.
En svo kom svarið:  “Jú hann hefur vissulega nokkra galla, eins og við öll.  Ég ætla ekki að þykjast vera fullkominn maður, enda er það jú enginn.  Honum þykir ágætt að kíkja í glas öðru hvoru, og sinnir kannski ekki skepnunum eins og best verður á kosið.  Það verður seint sagt að hann sé góður eiginmaður eða gegni föðurhlutverkinu af einhverri alúð.  En… hann er alla vegana hress.”
Þetta var svarið: “Hann er alla vegana hress.”  Þrátt fyrir allt sem á undan var talið, þá var hægt að finna þessa góðu hlið á því sem mér virtist vera algjörlega vonlausum manni.
Þetta svar og þetta viðhorf hefur gert það að verkum að ég hef reynt eftir fremsta megni að horfa frekar til þeirra kosta sem prýðir fólk fremur en galla, og það er eitthvað sem við ættum auðvitað öll að gera í samskiptum hvert við annað.
Ég hef ekki ennþá hitt nokkra einustu manneskju, eftir samtal mitt forðum, sem er svo slæm að ég geti ekki a.m.k. sagt: “Hann er alla vegana hress.”
 
Guðmundur Örn Jónsson, prestur í Landakirkju, stuðningsmaður Í.B.V. og félagi í Ungmennafélaginu Bjarma í Fnjóskadal.
 
Séra Guðmundur Örn er einn af fjórum fastapennum ÍBV síðunar og mun skrifa pistla mánaðarlega hér inn.