Hvaða litur viltu verða?

25.jan.2011  11:22

-Helga Tryggvadóttir skrifar

Eigum við að hætta að tala um einelti og ræða eitthvað skemmtilegt? Góður maður kom með þá hugmynd að halda einn góðan fund. Halda borgarafund með öllum eyjabúum og málið er dautt. Það væri óskandi. En það þýðir ekki að stinga hausnum í sandinn. Einelti er staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.
Til þess að bregðast eins við þurfum við að byrja á því að hafa sama skilning á einelti. Samkvæmt Olweusaráætluninni er skilgreiningin þríþætt: 1) Endurtekið, 2) illgirnislegt áreiti sem felur í sér 3) misbeitingu á valdi. Þannig er einhver sem er sterkari félagslega, vitsmunalega, efnahagslega, líkamlega eða á einhvern annan hátt að níðast í orðum eða gjörðum á einhverjum öðrum aftur og aftur.
 
Sá sem ber ábyrgð á eineltinu er sá sem leggur í einelti. En það eru fjöldamargir sem taka þátt í að leyfa eineltinu að viðgangast. Allir sem horfa á og hlusta og gera ekki neitt. Allir sem grunar að eitthvað misjafnt sé í gangi, en yppa öxlum og gera ekki neitt.  Það er skylda að vera í grunnskóla, nemendur geta ekki hætt. En þeir sem æfa íþróttir geta hætt. Þekkir þú einhvern sem hefur hætt að æfa íþrótt vegna eineltis?
 
Í Olweusaráætluninni vinnum við mikið með eineltishringinn. Þar eru teiknuð upp hlutverkin sem skilja á milli þess hvort einelti viðgengst eða ekki. Stefnan er að koma öllum í hlutverk verndarans, verða „græni karlinn“. Sumir þora ekki alveg að fara þangað. En mikill er máttur fjöldans. Ef hver og einn tekur þá ákvörðun að verða grænn, standa með náunganum og ekki standa og horfa á þegar hann verður undir, þá erum við á góðri leið.
Ég hvet þig til að skoða myndina sem hér fylgir af eineltishringnum. Veltu fyrir þér hvar þú ert og hefur verið. Flestir hafa verið í mörgum hlutverkum, grænir, rauðir, appelsínugulir, hvítir o.s.frv. En hvar viltu vera?
 
 
Einelti er hundleiðinlegt. Enginn er fylgjandi einelti. Allir eiga rétt á að líða vel og vera öruggir. Bæði þú og ég, bæði þitt barn á æfingum og mitt. Hvað getur þú gert?

Helga Tryggva
Námsráðgjafi og verkefnisstjóri í Olweusaráætluninni