Það er nóg um að vera flesta daga ársins hjá ÍBV-íþróttafélagi. Nú stendur handboltavertíðin sem hæst og undirbúningstímabilið hafið af krafti í knattspyrnunni. Þá er íþrótta-akademía ÍBV og FÍV formlega byrjuð. Þar fór aðsóknin fram úr björtustu vonum og voru á fimmta tug unglinga sem að skráðu sig til leiks. Þrettándagleði ÍBV var haldin laugardaginn 8. janúar og gekk vel. Ljóst er að þessi færsla að helgi hefur gefist mjög vel og horfum við á mun fjölmennari Þrettándagleði ár frá ári.
Yngri flokkar félagsins standa sig með prýði og nú bætist í hópinn börn frá fastalandinu því ÍBV og KFR skrifuðu á dögunum undir samstarfssamning sem gildir í öllum yngri flokkum félagsins. Mikil tilhlökkun er hjá undirrituðum að sjá hvernig þetta samstarf reynist og vonandi að báðir aðilar sjái mikinn hag af þessu.
Þá eru Pæjumótsnefnd, Shellmótsnefnd og Þjóðhátíðarnefnd allar farnar að huga að komandi verkefnum. Mikill undirbúningur er á öllum þessum viðburðum og er stöðugt verið að sníða hvert smáatriði til betri vegar.
Heimasíða félagsins, ibvsport.is er alltaf að eflast og eru heimsóknir á síðuna alltaf að aukast. Til stendur að halda áfram að styrkja síðuna og munu lesendur taka eftir á næstu vikum tíðari skrifum frá bæjarbúum og stuðningsmönnum félagsins.
Ef að þú kæri stuðningsmaður ÍBV sem lest þetta og villt koma þínum sjónarmiðum á framfæri getur þú sent okkur línu og við munum birta þína hugleiðingu.
Áfram ÍBV!
Kveðja
Tryggvi Már Sæmundsson