Þá er enn eitt árið að baki og ekki úr vegi að horfa yfir farinn veg. Árið 2010 var gæfuríkt fyrir ÍBV-íþróttafélag. Ekki bara innan vallar heldur líka í öllum lykilfjáröflunum félagsins. Að venju var það Þrettándagleði félagsins sem startaði árinu. Mikill fjöldi fólks heimsótti okkur þessa helgi og metfjöldi fylgdist með Grýlu, Leppalúða og sonum þeirra koma af fjöllum. Þrettándagleðin, sem nú hefur verið færð að helgi mun væntanlega halda áfram að stækka. Þetta kemur vel út og er komið til að vera. Rétt er að ítreka það hér að Þrettándagleði ÍBV er þakklætisvottur félagsins til bæjarbúa fyrir liðið ár og eru vel á þriðja hundrað manns sem koma að Þrettándanum í sjálfboðavinnu.
Handboltinn var á fleygi ferð í byrjun árs og voru bæði karla- og kvennalið nálægt toppnum þegar upp var staðið en þó vantaði herslumuninn á að klára dæmið. Bæði lið eru mjög ung og efnileg og standa uppi reynslunni ríkari á næsta tímabili.
Knattspyrnusumarið hófst í byrjun maí. Ekki byrjaði það þó gæfulega hjá meistaraflokki karla. Tap í fyrsta leik og svo kom eldgosið í Eyjafjallajökli í veg fyrir að hægt væri að leika á Hásteinsvelli í töluverðan tíma. En fall er fararheill og sannaðist það í þessu tilviki. Við tók mikil gleði og sigurganga sem endaði með úrslitaleik í síðustu umferð í Keflavík. Hann tapaðist því miður en glæsileg framistaða staðreynd engu að síður. Stelpurnar gerðu einnig frábæra hluti. Voru með mikla yfirburði í fyrstu deild og tryggðu úrvalsdeildarsæti að ári. Mikið og gott starf síðustu ára í kvennaboltanum er að skila sér í öflugu lið sem á eftir að gera góða hluti í efstu deild á næstu árum.
En aftur að stærstu fjáröflunum félagsins. ÍBV heldur á ári hverju tvö stór handboltamót fyrir yngri flokka. Þetta eru mikilvægar fjáraflanir sem unglingaráð í samvinnu við handboltaráð hafa séð um. Mikil ánægja er meðal handboltaforystunnar um þessi mót. ÍBV fær hrós fyrir skipulagningu og fjölbreytta dagskrá utan vallar. Nú er svo komið að þessi mót eru komin til að vera.
Pæjumót TM var haldið í byrjun júní. Mótið heldur áfram að stækka og var það einnig mjög vel heppnað. Sú breyting sem var gerð á mótinu fyrir nokkrum árum og flokkarnir skornir niður í einn virðist hafa gengið fullkomlega upp.
Shellmótið var haldið hálfum mánuði seinna og það gekk einnig mjög vel. Mikil ásókn er í að komast á mótið og komast færri lið að en vilja. Shellmótið er gríðalega vel skipulagt og hefur orð á sér fyrir mikla nákvæmni í öllum tímasetningum. Gaman að sjá hversu sterkt mótið er orðið aftur eftir örlitla lægð fyrir nokkrum árum.
Þjóðhátíðin var haldin í blíðskapar veðri fyrstu helgina í ágúst. Ljóst var að mikill fjöldi væri á leið í Herjólfsdal á Þjóðhátíð. Það kom á daginn. Metfjöldi þriðja árið í röð. Þrátt fyrir úrtöluraddir fyrir hátíðina gekk helgin stórslysalaust fyrir sig. Þjóðhátíð er og verður langmikilvægasta fjáröflun félagsins. Hún gerir það að verkum að ÍBV-íþróttafélag getur verið með einhver lægstu æfingagjöld á landinu. Félagið greiðir orðið ferðakostnað yngriflokka í íslandsmót og tekur þátt í gistikostnaði þurfi börnin að gista. Ekkert annað félag á Íslandi gerir jafn vel við sína iðkendur og ÍBV-íþróttafélag er að gera. Það fullyrði ég. En aftur að Þjóðhátíðinni. Það er gríðarlega mikið af sjálfboðaliðum sem koma að hátíðinni. Einnig er mikill fjöldi af starfsfólki sem kemur að verkefninu. Óhætt er að reikna með þegar allt er talið að á áttunda hundrað manns komi að þessu risavaxna verkefni með einum eða öðrum hætti.
Síðastliðið haust hófst svo handboltavertíðin aftur. Ákveðið var að senda kvennaliðið í úrvalsdeild. Byggt var ofan á það góða starf frá árinu áður og eru stelpurnar að standa sig með mikilli prýði í efstu deild. Strákarnir eru í toppbaráttunni í fyrstu deild og stefna þeir ótrauðir á að komast í úrvalsdeild næsta vor.
Á þessari upptalningu má sjá að árið var viðburðaríkt hjá ÍBV-íþróttafélagi. Auk þessa voru margvíslegar smærri fjáraflanir og uppákomur sem krydda bæjarlífið hér í Eyjum.
Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komið hafa að fjáröflunum og uppákomum félagsins. ÍBV er og verður stolt okkar Eyjamanna. Stöndum því vörð um félagið. Ég vil fyrir hönd ÍBV-íþróttafélags óska bæjarbúum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir stuðninginn á árinu sem nú er liðið. Megi árið 2011 vera jafn gæfuríkt fyrir ÍBV og bæjarbúa og 2010 var.
Tryggvi Már Sæmundsson.
Framkvæmdastjóri ÍBV íþróttafélags.
Greinin birtist í Þrettándablaði ÍBV