Hún kom því á óvart umræðan sem fór af stað kjölfar þessara jákvæðu tíðinda. Er allt til sölu, var hrópað á torgum. Undarlegt, því ég veit bara ekki um neitt annað hús í Eyjum sem nýtt hefur verið með þessum hætti til þess að afla æskulýðsstarfi fé. Vonandi fæðast fleirri svona góðar hugmyndir. Athyglisvert hvað einstaklingar sem telja sig til frjálshyggjumanna, fulltrúa frelsis og markaðar, voru framarlega og áberandi í kórnum. Þeim finnst reyndar mörgum kommunum gott að kalla sig frjálshyggjumenn og aðrir greina reyndar ekki muninn.
Einn hringdi í mig æfur og spurði hvort ekki ætti að selja slökkvistöðina næst. Það væri hægt að nefna hana TM stöðina. Ég bað manninn að vera rólegan, það ætti ekki að mála Heimaklett bleikan. Hins vegar sagði ég manninum að mér þætti þetta bara ágæt hugmynd hjá honum og gott innlegg í umræðuna. Kannski væri bara gott og þarft að breyta um strúktúr í samfélaginu. Vestmanneyjabær tæki að sér rekstur íþróttahreyfingarinnar alfarið og stofnanir eins og slökkviliðið yrðu settar í sjálfsöflun. Slökkvistöðin myndi þá kannski heita TM stöðin og það væru tómatsósu auglýsingar á slökkviliðsbílunum og stór kókosbolla aftan á slökkviliðsbúningunum. Svo væri haldið slökkviliðs bingó og velunarar þess færu reglulega í klósettpappírs og rækjusölu. Það væru örugglega margir reiðubúnir til starfa, enda mikilvægt að þessi nauðsynlegi öryggisþáttur sé virkur og öflugur. Nákvæmlega eins og þeim sem starfa fyrir íþróttahreyfinguna finnst mikilvægt að hér sé öflugt og gott íþróttastarf. Hvoru tveggja er okkar samfélagi gríðarlega mikilvægt. Það væri líka gott að gefa öllu því góða fólki sem stritað hefur fyrir íþróttahreyfinguna kærkomið frí frá vanþakklæti og neikvæðri umræðu. En eitt er öruggt, niðurifskórinn og frjálshyggjumennirnir hugprúðu yrðu strax mættir til að gagnrýna slökkviliðið. Þeir myndu örugglega gapa „ Er allt til sölu „ ef slökkviliðið fyndi góða og einfalda leið til fjáröflunar, öllum bæjarbúum til heilla.
Það vilja allir gott og öflugt íþróttastarf. Það vilja líka allir harðsnúið og vel útbúið slökkvilið. Ég vona bara að allir skilji hvað þarf til þess að báðir þessir þættir séu eins og við viljum hafa þá.
Páll Scheving Ingvarsson