Það er engin nýlunda að íþróttfélög leiti til fyrirtækja vegna styrkja. Sem betur fer hafa fyrirtæki í Vestmannaeyjum og víðar af landinu talið jákvætt að styðja ÍBV-íþróttafélag, enda starf félagsins gríðarlega öflugt og eftirtektarvert. Stundum er mögulegt að ná hærri styrkjum ef ávinningur er af sýnileika. Þannig er það í þessu tilfelli. Ábati barna og unglingastarfs verður vel á annan tug milljóna á samningstímanum, ef samningar verða undirritaðir. Það verður ekki tekið upp af götunni, sérstaklega ekki eins og árar á Íslandi í dag.
Gísli Valtýsson skrifar í gær grein undir fyrirsögninni „ Er allt til sölu ?“. Undirritaður getur ekki svarað því . Það er hins vegar ekki allt seljanlegt, hvað þá fyrir hátt verð, svo mikið er víst. Það er allt eins hægt að spyrja „ Hver á nýja íþróttahúsið ?“. Svarið við því er einfalt. Vestmannaeyingar. Eigum við svo að spyrja „ Hver fær tekjurnar af nafngiftinni“ . Svarið við því er einfalt. Tekjurnar renna til heimila í Vestmannaeyjum. Bæjarbúa. Þær létta kostnaði af fjölskyldum sem eru með börn í íþróttum. Barnafjölskyldum sem hvað þyngstar eru í rekstri. Er það vont? Því verður hver að svara fyrir sjálfan sig. ÍBV-íþróttafélag er ekki hlutafélag eða mafía. Það er misskilningur.
Ég vona svo sannarlega að af samningum verði og Eyjamenn fagni því að jafn stórt og öflugt fyrirtæki og Eimskip, reiði fram fjármagn til barna- og unglingastarfs ÍBV-íþróttafélags. Ég vona líka að fyrirtækið meti fjárfestinguna góða, þannig að viðskiptin verði öllum til hagsbóta. Það er líka mikilvægt.
Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags