Yngri flokkar - Tveir góðir sigrar hjá 3.flokki karla í handbolta.

12.nóv.2010  11:25
3.flokkur karla ÍBV í handbolta hefur á undanförnum dögum unnið tvo góða sigra, um síðustu helgi vann liðið ÍR í Íslandsmótinu 43-24 og í gær sló liðið Aftureldingu út úr bikarnum í Bikarkeppni HSÍ á útivelli 27-20.
Leikurinn á móti ÍR var einstefna frá upphafi og spiluðu strákarnir mjög vel, vörnin var þétt og Nökkvi Sverrisson var góður í markinu. Hallgrímur Júlíusson var markahæstur með 12 mörk, Bergvin Haraldsson 11, Patrick Rittmuller 7 (og fjölda stoðsendinga) og Jón Friðjónsson 6. ÍBV hefur unnið alla þrjá leiki sína í upphafi Íslandsmótsins og eru strákarnir að bæta sig með hverjum leik.
 
Í gær fór liðið í Mosfellsbæinn til að spila við Aftureldingu í Bikarkeppni HSÍ. ÍBV byrjaði vel og komst í 5-1 en þá tók Afturelding Hallgrím úr umferð og við það riðlaðist leikur liðsins. Vörnin var líka léleg og staðan í hálfleik var 13-13. Strákarnir komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og eftir miðjan hálfleikinn var staðan orðin 20-15 ÍBV í vil, það sem breytti leiknum var að nú var vörnin orðin frábær og Jóhann Gunnar Aðalsteinsson varði mjög vel í markinu. Lokatölur urðu 27-20 og er ÍBV því komið áfram í 16 liða úrslit í Bikarnum. Markahæstir voru Patrick með 7, Hreiðar Óskarsson með 6 og Halldór Geirsson með 5.