Skemmst er frá því að segja að A-lið ÍBV stóð sig frábærlega og endaði í öðru sæti í efstu deild. Strákarnir byrjuðu mótið af miklum krafti og unnu Hauka í fyrsta leik 16-5, síðan unnu þeir HK 12-11 og Þrótt einnig 12-11. Þá var komið að hreinum úrslitaleik við FH en bæði liðin voru búin að vinna alla sína leiki. ÍBV spilaði fyrri hálfleikinn mjög vel og var yfir í hálfleik 6-4 en í seinni hálfleik seig á ógæfuhliðina og leikurinn tapaðist 7-11. Seinasti leikurinn var svo við Stjörnuna og tapaðist hann 14-17 en hann skipti litlu máli því að annað sætið var tryggt. Strákarnir stóðu sig allir frábærlega, varnarleikurinn og góð markvarsla var aðall liðsins og síðan skiptust mörkin nokkuð jafnt á alla útileikmenn liðsins.
B-lið ÍBV lenti í þriðja sæti í sinni deild. Þeir unnu tvo leiki og töpuðu tveimur. Þeir unnu HK 11-10 og KA 13-6 en töpuðu fyrir Þór 7-9 og Gróttu 9-13. Gaman var að fylgjast með leikmönnum liðsins og var baráttan og leikgleðin í fyrirrúmi.
Þessi byrjun lofar góðu og greinilegt að mikils er að vænta af þessum strákum í framtíðinni.