Þjóðhátíðarnefnd er reiðubúin í að taka við tölvert fleira fólki en kom í fyrra, og er samstarf nefndarinnar og bæjaryfirvalda liður í þeirri stækkun. Stýrihópur um þjóðhátíð hefur nú starfað um nokkura ára skeið og hefur hann skilað miklu í uppbyggingu þjóðhátíðar. Næsta skref í þeirri uppbyggingu er bygging á nýju þjónustuhúsi í Herjólfsdal. Húsið kemur til með að vera undir brekkusviðinu og hýsa sjoppur, salerni, starfsmannaaðstöðu og geymslupláss.
Einnig er stækkun tjaldstæða á teikniborði stýrihópsins. Undanfarin tvö ár hefur tjaldstæði heimamanna verið stækkað og þar hafa orðið til um 70 ný stæði. Það hefur þó ekki dugað til. Nú stendur til að slétta út flötina fyrir ofan veg og teljum við að þar getum við fengið um 70 ný stæði. Einnig er stefnt að því að fjölga stæðum fyrir aðkomutjöld.
Þjóðhátíðin er gríðarlega mikilvæg okkur Eyjamönnum og mikilvægt að hátíðarhaldið takist sem best. Þjóðhátíðarnefnd leggur sitt af mörkum til að svo megi vera.
Tryggvi Már Sæmundsson
Framkvæmdastjóri ÍBV-íþróttafélags.