Frábærar fréttir fyrir fótboltann - rís stækkanlegt hús?
11.nóv.2008 20:25
Nú hafa tilboð í byggingu knattspyrnuhús verið opnuð og er það sérstakt ánægjuefni að tvö tilboð bárust sem eru undir kostnaðaráætlun bæjarins. Aðaltilboð Steina og Olla ehf var tæplega 93% af kostnaðaráætlun og frávikstilboð Smíðanda ehf var rúmlega 91% af kostnaðaráætlun. Sérstaka athygli vekur tilboð 2 frá Steina og Olla. Þar er um að ræða stækkanlegt hús og tilboðið undir kostnaðaráætlun bæjarins. Hlýtur það að vera krafa knattspyrnuhreyfingarinnar að bæjaryfirvöld skoði vandlega kosti þess að fara út í byggingu slíks húss með framtíðina að leiðarljósi. Aðeins munar 4,6% á tilboði á óstækkanlegu og stækkanlegu húsi.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja samningaviðræður við þá aðila sem áttu hagstæðustu tilboðin. Vill knattspyrnuráð árétta nauðsyn þess að skoða vandlega möguleikann á byggingu stækkanlegs hús með tilliti til framtíðarhagsmuna bæjarfélagsins og ÍBV. Það er von okkar að áætlanir standist og byrjað verði að spila fótbolta í nýju knattspyrnuhúsi haustið 2009.
Knattspyrnuráð ÍBV