Pæju- og Shellmót á uppleið
02.apr.2008 09:21
Við erum þakklát versluninni Vöruval fyrir góðan stuðning undanfarin ár, en Vöruval hefir verið aðalstyrktaraðili pæjumótsins. Nú hefir hins vegar verið samið við Tryggingamiðstöðina til næstu tveggja ára. Samningurinn er mjög góður fyrir mótið og félagið í heild. Pæjumót TM verður haldið dagana 12.-15. júní í sumar. Þegar hafa mörg félög tilkynnt þátttöku í mótinu, og svo virðist, sem öflugt markaðsstarf sé að skila fleiri þátttakendum. Nú síðast var Stjarnan í Garðabæ að tilkynna komu sína. Þeir hafa ekki verið með í nokkurn tíma. Ánægjuleg þróun virðist vera í gangi varðandi Pæjumót TM.
Varðandi Shellmótið, þá virðist sama þróun vera í gangi á þeim bæ. Breytingar, sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi mótsins virðast ætla að skila fleiri þátttakendum en í fyrra. Nokkur félög, sem ekki hafa verið með s.l. ár eru að skila sér aftur. Það stefnir í frábært Shellmót í ár, með fleiri félögum og ánægjulegt, að þetta besta knattspynumót landsins, standi af sér allar breytingar frá ári til árs.