Frábær árangur hjá Margréti Láru

29.des.2006  13:50

Ívar og Hermann einnig verðlaunaðir fyrir góðan árangur

Eyjapæjan viðkunnalega Margrét Lára Viðarsdóttir hefur heldur betur sópað til sín hólinu síðustu daga, og ekki eins og hún hafi ekki verðskuldað það. Fyrst var hún kosin knattspyrnukona ársins af KSÍ og svo lendir´hún í 5 sæti í kjöri á íþróttamanni ársins hjá íþróttafréttariturum. Fyrr í haust hafði hún svo eins og flestum er kunnugt orðið Íslands- og bikarmeistari með liði sínu á þeim tíma, Val, auk þess sem hún rúllaði upp markakóngstitlinum með markakóngsmeti auk þess sem hún var valin leikmaður ársins af leikmönnum á lokahófi KSÍ. Hún skoraði einnig 8 mörk í 8 A-landsleikjum. Margrét Lára hélt svo í víking til Þýskalands þar sem hún mun leika næstu misseri. Margrét Lára er sennilegast orðin nú þegar besta knattspyrnukona Íslandssögunnar án þess að á nokkurn sé hallað.

Við eignum okkur líka oft Ívar Ingimarsson varnartröll hjá Reading, enda spilaði hann hérna hjá okkur við góðan orðstír á sínum tíma, hann varð annar í kjöri knattspyrnumanns Íslands 2006 á eftir Eiði Smára. Ívar átti frábært tímabil með Reading í næst efstu deild í Englandi á síðasta tímabili og hefur byrjað ágætlega í haust. Hinn hreinræktaði Eyjapeyji Hemmi Hreiðars, oft nefndur Herminator, varð svo þriðji í þessu kjöri en hann er nú maðurinn sem rekur áfram vörn Charlton.

Aldeilis frábær árangur hjá þessu magnaða íþróttafólki okkar og full ástæða til þess að óska þeim innilega til hamingju og vonast til þess að árið 2007 verði þeim einnig fengsælt