Fótbolti - Markakóngurinn Gunnar Heiðar leggur skóna á hilluna

02.okt.2018  11:30

Markakóngurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson hefur spilað sinn síðasta leik fyrir ÍBV, en hann tók þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna eftir keppnistímabilið 2018. Og er ekki annað hægt að segja en að hann hafi lokið ferlinum með stæl þar sem hann skoraði þrennu í síðasta leiknum á móti Grindavík. 

Gunnar hóf ferilinn í meistaraflokki með ÍBV sumarið 1999 og var hann því að ljúka sínu 20. keppnistímabili. Eftir keppnistímabilið 2004 hélt Gunnar í atvinnumennskuna og spilaði þar m.a. með Halmstad í Svíþjóð, Hannover í Þýskalandi, Vålerange í Noregi, Esbjerg í Danmörku, Reading á Englandi, Fredrikstad í Noregi, Norrköping í Svíþjóð, Konyaspor í Tyrklandi og Häcken í Svíþjóð áður en hann sneri aftur heim til Eyja 2015.

Bestu tímabilin sín í markaskorun átti Gunnar í Svíþjóð en hann varð markakóngur sænsku úrvalsdeildarinnar með Halstad árið 2005, skoraði 16 mörk og gerði þá tvær þrennur fyrir liðið. Hann bætti um betur með Norrköping árið 2012, skoraði þá 17 mörk í úrvalsdeildinni en varð annar markahæsti maður deildarinnar í það skiptið.

Gunnar Heiðar varð hinsvegar markakóngur íslensku úrvalsdeildarinnar árið 2004 þegar hann skoraði 12 mörk fyrir Eyjamenn. Árið áður varð hann einn þriggja markahæstu sem skoruðu 10 mörk hver, en árið 2002 varð Gunnar í 3.-4. sæti markalistans með 11 mörk fyrir ÍBV.

Samtals lék Gunnar 328 deildarleiki á ferlinum, þar af 316 í efstu deild, og skoraði í þeim 124 mörk, þar af 121 í efstu deild, 61 á Íslandi og 60 erlendis. Af þeim voru 53 í sænsku úrvalsdeildinni.

Til viðbótar þessu skoraði Gunnar Heiðar 5 mörk í 24 landsleikjum fyrir Íslands hönd, en hann lék fyrst með landsliðinu gegn Ítalíu árið 2005 og síðast gegn Slóveníu árið 2013. Í bikarkeppninni ber hæst sigurmarkið fyrir ÍBV gegn FH í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli á síðasta ári.

Gunnar skoraði 9 mörk fyrir ÍBV í deildinni í sumar og varð með því markahæsti leikmaðurinn annað árið í röð og í fimmta skiptið samtals. Hann er ennfremur fjórði Eyjamaðurinn til að skora 60 mörk í efstu deild karla frá upphafi. Og komst upp fyrir Sigurlás Þorleifsson heitinn sem þriðji markahæsti leikmaður ÍBV í deildinni með samtals 61 mark. Fyrir ofan hann eru aðeins Tryggvi Guðmundsson með 75 mörk og Steingrímur Jóhannesson heitinn með 72 mörk.

ÍBV íþróttafélag þakkar Gunnari fyrir sitt framlag til knattspyrnunnar í Eyjum.

Heimildir fengnar hjá mbl.is og KSÍ