ÍBV án fordóma

ÍBV

FÉLAG ÁN FORDÓMA

ÍBV-íþróttafélag,  hefur sett saman fræðslu gegn fordómum í íþróttum, og almennt í hlutum í tengslum við íþróttir hjá félaginu, og fylgir hún hér á eftir.
 
Þetta er það plagg sem að við ætlum iðkendum, foreldrum og starfsmönnum félagsins að fara eftir og hafa í hávegum hvortsem er innan vallar eða utan.
 
HVAÐ ERU FORDÓMAR?
 
Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna. Það er því miður staðreynd að á Íslandi verða einstaklingar fyrir fordómum og aðkasti m.a. vegna uppruna síns. Öll þurfum við að
 
leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir fordóma í íþróttum hvort sem um er að ræða félög, þjálfara, leikmenn, áhorfendur eða aðstandendur. Með samstilltu átaki getum við áorkað miklu og sparkað fordómum út úr íþróttum.
 
HVAÐ GET ÉG GERT?
 
Ef einhver einstaklingur í kringum þig er haldinn fordómum skaltu ekki taka undir með honum heldur benda á að þú sért ekki sammála. Þú getur frætt aðra um að fordómar eigi ekki rétt á sér í íþróttum eða annars staðar. Einnig getur þú beðið fólk að setja sig í spor þess sem það fordæmir og þá opnast oft augu viðkomandi. Við eigum að koma fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur sjálf. Sýndu þeim sem verða fyrir fordómum stuðning og liðsinntu þeim.
 
Ef þú verður sjálfur fyrir fordómum, mundu að þú stendur ekki ein/einn. Reyndu að finna einhvern sem stendur með þér og styður þig og þú getur talað við. Það geta verið vinir, foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem þú treystir.
 

 

HVAÐ ER HEIÐARLEG FRAMKOMA?

 

 
ÍBV leggur áherslu á að íþróttir séu leiknar á heiðarlegan hátt og hvetja alla sem koma að íþróttinni til að sýna öðrum þátttakendum virðingu. Öguð og jákvæð framkoma ætti að vera markmið sérhvers leikmanns á vellinum. ÍBV hefur tekið saman þau meginatriði sem felast í heiðarlegri framkomu og hvað hægt er að gera til að auka veg íþrótta og gera þær sem mestar.
 
 
ÍBV-íþróttafélag LEGGUR ÁHERSLU Á AÐ:
   
• Leikmenn ÍBV leiki íþróttir án alvarlegra leikbrota og án rifrilda við dómara.
 
• Þjálfarar félagsins hvetji leikmenn sína til að leika heiðarlega og reyni ekki á þolinmæði dómarans. Þjálfarar eru fyrirmyndir leikmanna.
 
• Áhorfendur njóti leiksins, hvetji leikmenn sína áfram og sameinist um að útiloka öll niðrandi ummæli til leikmanna og dómara inni á vellinum, sama hvað á dynur.
 
• Forráðamenn ÍBV sinni starfi sínu af ábyrgð og heiðarleika.
 
• Foreldrar og forráðamenn barna hvetji þau til að leika heiðarlega, styðji við bakið þeim í íþróttunum, mæti á leiki og sýni stuðning við allt liðið og sleppi öllum niðrandi ummælum um leikmenn og dómara.
 
• Fjölmiðlar, félagið og foreldrar ýti undir heiðarlegan leik með jákvæðri umfjöllun og umræðu