Fótbolti - Kæru Eyjamenn nær og fjær!

16.apr.2015  21:39

Nú þegar þrjár vikur eru í að Íslandsmótið hefst og langur vetur (vonandi) að baki er ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðuna. Við erum nýkomnir úr kærkominni æfingaferð frá Campoamor á Spáni þar sem við gátum æft og spilað fótbolta við toppaðstæður.

Veðrið var svo sem ekkert að leika við okkur þar heldur, en rennisléttir grasvellir, góður matur og flott hótel bætti upp fyrir allt saman. Æfingaferð sem þessi er fótboltaliðum gríðarlega dýrmæt, ekki síst fyrir okkur Eyjamenn, og þar náum við að stilla saman strengina fyrir komandi átök. Það er engin spurning í mínum huga að ætlunarverk okkar um að koma tilbaka til Eyja sem betra lið hafi svo sannarlega tekist. Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum frá því í fyrra og þessi mikla samvera bæði utan vallar og innan hefur gert okkur mjög gott.

Frammistaðan og úrslitin í æfingaleikjum vetrarins hafa verið sveiflukennd. Við byrjuðum feykivel og spiluðum oft á tíðum frábæran fótbolta, skoruðum mikið ásamt því að skapa slatta af færum. En gengi okkar fór að dala eftir því sem veiddist meira á loðnumiðunum og það kom kafli þar sem við áttum erfitt uppdráttar. Daddi slúttaði hins vegar loðnuvertíðinni með balli í Höllinni 1. apríl og síðan þá hefur leiðin legið upp á við. Okkur hefur tekist að vinna í veikleikunum frá leikjunum í mars og sigrar í tveimur síðustu leikjum gefa góð fyrirheit. Markmið okkar um að bæta árangur liðsins verulega frá því í fyrra er alveg skýrt. Við höfum það líka sem markmið að spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta, viljum sækja sem oftast og getað stjórnað leiknum með boltann innan liðsins. Það allra mikilvægasta verður þó að ná upp sannkallaðri Eyjastemmningu innan liðsins og smita henni til stuðningsmanna ÍBV. Takist það þá fylgir árangurinn í kjölfarið. Hvað aðrir halda um okkur og spár „sérfræðinganna“ um hvernig gengi liðsins verður skiptir okkur engu. Við höfum bullandi trú á verkefninu og ætlum að koma ÍBV í fremstu röð áður en langt um líður.

Ástandið á leikmannahópnum er þokkalegt eins og staðan er nú. Fyrir utan Matt þá er enginn sem á við langvarandi meiðsli að stríða. Mees Siers er kominn á fullt aftur og það er stutt í að Jonathan verði orðin leikhæfur, ásamt Gauta, sem meiddist lítillega í æfingaferðinni. Við gerum því ráð fyrir að allir í leikmannahópnum verði klárir fyrir síðustu tvo æfingaleikina. Munið síðan að taka frá sunnudaginn 3. maí, þá ætlum við að vinna Fjölni í fyrsta leik Íslandsmótsins!

ÁFRAM ÍBV, alltaf og alls staðar

Jói H. – þjálfari mfl. karla