Fótbolti - Tap í baráttuleik

01.jún.2005  13:12

ÍBV og Breiðablik mættust í gær í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Fyrirfram var búist við spennandi og skemmtilegum leik enda tvö af sterkari liðum deildarinnar mætt til leiks. Blikar höfðu fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar en okkar stelpur í ÍBV voru með 3 stig.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og var hart barist. Á 20.mínútu kom Guðlaug Jónsdóttir Blikum yfir eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn Eyjastúlkna. Margir vildu meina að Guðlaug hefði verið rangstæð en hún lét það ekki á sig fá, nýtti sér mistök í vörn ÍBV og renndi boltanum í netið framhjá Danielle Hill markmanni Eyjaliðsins. Eftir þetta sóttu stelpurnar okkar í sig veðrið og fengu góð færi til að jafna en Þóra Helgadóttir stóð fyrir sínu í markinu og varði það sem á markið kom. Á 25.mínútu braut Hólmfríður Magnúsdóttir á Guðlaugu sem svaraði með því að sparka í Hólmfríði og hlaut að launum rautt spjald. Hárréttur dómur hjá ágætum dómara leiksins og ÍBV stelpurnar því einum fleiri inni á vellinum.

En því miður tókst þeim ekki að nýta sér það í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera mun meira með boltann og staðan í hálfleik því 1-0 Kópavogsstúlkum í vil.

Seinni hálfleikurinn var nýhafinn þegar Blikar bættu við sínu öðru marki. ÍBV missti boltann á miðjunni, Blikar brunuðu upp kantinn og sendu boltann á kollinn á Ernu B. Sigurðardóttur sem var ein og óvölduð í teignum og átti ekki í vandræðum með að stýra boltanum í netið. Eftir þetta sóttu okkar stúlkur nær linnulaust og þegar um 15 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fékk Bryndís Jóhannesdóttir stungusendingu inn fyrir vörn Blika og náði að renna boltanum framhjá Þóru sem átti misheppnað úthlaup frá marki sínu. Staðan því 2-1 og nóg eftir af leiknum. En þrátt fyrir þunga sókn ÍBV það sem eftir lifði leiks og góð færi til að jafna leikinn þá tókst það því miður ekki og það voru Kópavogsstúlkur sem fögnuðu sætum sigri.

Það er óhætt að segja að þessi sigur hafi verið frekar ósanngjarn. ÍBV liðið sótti nær allan leikinn en Blikastúlkur fengu aðeins þessi tvö færi sem þær nýttu sér vel. Okkar stúlkur náðu hins vegar ekki að nýta sín færi og því fór sem fór. Næsti leikur liðsins er gegn Keflavík á mánudaginn kemur en þær hafa styrkt sig með erlendum leikmönnum. Því má búast við erfiðum leik en nauðsynlegt er að ÍBV stelpurnar nái að sigra.