Fótbolti - ÍBV-Breiðablik í kvöld

31.maí.2005  11:24

- Stórleikur á Hásteinsvelli kl 20:00

Í kvöld mætast lið ÍBV og Breiðabliks í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu. Blikastelpur hafa farið vel af stað í deildinni og báru m.a. sigurorð af Íslandsmeisturum Vals í 1.umferð. Í síðustu umferð unnu þær svo Keflavíkurstúlkur eftir baráttuleik og Blikar eru því með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. Það er því ljóst að stelpurnar okkar þurfa að gefa allt sitt ef þær ætla að eiga möguleika á sigri og skiptir stuðningur áhorfenda líka miklu máli.

Því miður náðu félagaskipti fyrir nýju leikmennina ekki í gegn nógu fljótt og verða þær Suzie Malone og Suzanne Robertson að bíða örlítið lengur eftir að geta klæðst ÍBV búningnum. Þetta orsakast af því að á föstudag og mánudag voru frídagar í Bretlandi og því fékkst ekki staðfesting á félagaskiptum þeirra yfir í ÍBV. Auk þess á Sigríður Ása Friðriksdóttir við meiðsli að stríða og verður ekki með í kvöld. Vonumst við til að hún geti verið með í næsta leik.

Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 20:00 og biðlum við til ykkar Eyjamenn góðir að mæta á leikinn og styðja stelpurnar okkar til sigurs. Um 30 stuðningsmenn Breiðabliks munu fylgja liðinu til Eyja og því enn mikilvægara að Eyjamenn fjölmenni á völlinn. ÁFRAM ÍBV !!!