Handbolti - Mikið um að vera hjá 2.flokki karla

27.jan.2005  15:58

2.flokkur karla lék þrjá leiki um s.l. helgi.  Við hjá ibv.is settum okkur í samband við Kristinn Guðmundsson þjálfara og spurðum hann hvernig hefði gengið.“Á föstudagskvöld spiluðum við gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.  Leikurinn var jafn framan af en síðan sigu leikmenn Gróttu fram úr og höfðu yfir í hálfleik 16-12.  Síðari hálfleikur hófst með þrem mörkum heimamanna og þar með virtist leikurinn búinn.  Okkar strákar gáfust ekki upp og náðu með mikilli baráttu að vinna sig aftur inn í leikinn 25-23, þegar 5 mínútur voru eftir.  Lengra komumst við ekki og lokatölur 29-24 fyrir Gróttu.

Atkvæðamestir voru Grétar Eyþórsson með 8 mörk (og fjölmargar stoðsendingar) og Baldvin Sigurbjörnsson sem skoraði 6 mörk.

Á laugardag mætum við liði Selfoss og endaði sá leikur með átta marka sigri okkar 34 - 26 eftir að staðan í hálfleik var 17-13 okkar mönnum í vil.  Leikurinn var afskaplega vel spilaður af okkar hálfu og til að mynda skoruðu allir útileikmenn liðsins.  3-2-1 vörn okkar gekk mjög vel með Benidikt Steingrímsson í fararbroddi, en hann spilaði fyrir framan(senter) og leysti þá stöðu frábærlega.  Atkvæðamestir voru Leifur Jóhannesson og Sævald Hallgrímsson með 8 mörk hvor en aðrir skoruðu minna.

Á sunnudag lékum við Aftureldingu og er skemmst frá því að segja að við steinlágum að Varmá 39-24.  Staðan í hálfleik var 18-11.  Jafnt var með liðunum upp í 4-4 en eftir það sigu Mosfellingar fram úr og unnu mjög svo öruggan sigur.  Strákarnir áttu mjög erfitt uppdráttar gegna mjög sterku liði UMFA, sem er reyndar á toppi deildarinnar, voru mjög þreyttir eftir erfiða helgi og þrek til baráttu lítið.  Atkvæðamestir voru Grétar Eyþórs með 8 mörk, Leifur Jóhannesson 7 og Kári Kristján Kristjánsson 5 mörk.”

2.flokkur karla á eftir að leika 3 leiki í sínum riðli, en liðið á ekki mikla von um sæti í úrslitum.