Handbolti - Unglingaflokkur kvenna stóð sig ágætlega um helgina

25.jan.2005  23:54

Unglingaflokkur kvenna í handbolta spilaði tvo leiki um helgina og stóð sig ágætlega.  Stelpuarnar hafa verið að taka miklum framförum í vetur og vantar aðeins herslumuninn upp á það að þær verði meðal þeirra allra bestu á landinu í dag.  En nú þegar eru þær í hópi betra liða landsins.

Farið var upp á land með Herjólfi snemma á föstudag og keyrt norður yfir heiðar til Akureyrar. Á laugardeginum var svo spilað við heimaliðið KA/ÞÓRS. Leikurinn var mjög jafn allan tímann og skiptust liðin á að hafa forystuna en aldrei munaði meiru en einu marki. Með örlítið skynsamari leik hefðum við getað leitt með 1-3 mörkum í hálfleik en vorum þess í stað undir í hálfleik einu marki.

Leikurinn var mjög spennandi áfram eftir hlé en þó leiddi KA/ÞÓR yfirleitt leikinn. Um miðjan síðari hálfleik þurfti Ester að fara útaf í ca. 3 mínotur vegna smá meiðsla á fingri. Á meðan hún var útaf misstum við boltann klaufalega tvisvar í sókninni og skyndilega voru gestirnir komnir 4 mörkum yfir og útlitið ekki gott.

En við Eyjamenn erum þekktir fyrir margt annað en að gefast upp og sú varð raunin á laugardaginn. Brugðum við á það ráð að fara framar á völlinn úr 5-1 vörn í 4-2. Með mikilli seiglu og baráttu náðum við að minnka muninn í eitt mark þegar um það bil 2 mínotur voru eftir. Þá misstum við einn leikmann útaf í tvær mínotur, þannig að við vorum einu marki undir og einum manni færri þegar lítið var eftir. Við unnum þó boltann og jöfnuðum leikinn þegar 45 sekúndur lifðu af leiknum. KA/ÞÓR náði því miður að knýja fram sigurinn með marki rétt fyrir leikslok. Ergilegt að tapa þessum leik enda áttum við skilið að minnsta kosti eitt stig á erfiðum útivelli.

Liðsheildin var mjög góð eins og svo oft áður í vetur. Ester, Hekla, Sæunn og Hildur drógu þó vagninn og eru þar á ferðinni mjög efnilegir leikmenn sem hafa bætt sig gríðarlega í vetur og hljóta að fara að banka rækilega á dyrnar hjá meistaraflokksliði félagsins. Einnig má geta þess að Birna spilaði sinn fyrsta leik í nokkurn tíma eftir meiðsli og átti frábæran leik varði hún 18 skot þar af tvö hraðaupphlaup og 3 víti.

Á sunnudaginn var svo ferðinni heitið í breiðholtið að spila við efnilegt lið ÍR. Eitthvað sat ferðin frá Akureyri í okkar stelpum og ÍR náði fljótlega forystunni. Lítil barátta var í liðinu. Eins og oft áður í vetur hrökk liðið þó í gang og náði að komast inn í leikinn af harðfylgi. Því miður kostaði það mikið þrek og ÍR stelpur gengu á lagið síðar í leiknum. Við gerðum þau mistök að fara að spila til að halda forskotinu og töldum björninn unninn of snemma. ÍR stelpur jöfnuðu leikinn þegar lítið var eftir og við klúðruðum tveim upplögðum tækifærum á síðustu andartökum leiksins til að knýja fram sigur. Jafntefli varð niðurstaðan og voru það mjög svekkjandi úrslit.

Staðan er einföld í riðlinum. Við erum í 3 sæti og eigum tvo leiki inni á toppliðið og gætum komið okkur í annað sætið með sigrum í næstu leikjum. Tvö lið fara upp úr riðlinum og spila í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins. Þar stöndum við vel að vígi en þurfum að æfa vel ef við ætlum okkar að keppa meðal þeirra bestu.

Þar á þetta lið heima en versti óvinur þess er sennilega það sjálft. Trúið á ykkur stelpur ykkur eru allir vegir færir.

 

Staðan:

1. Ka/þór 19 stig. 14 leikir.

2. Valur 17 stig. 11 leikir.

3. ÍBV 15 stig. 11 leikir.

Við höfum betur í innbyrðisviðureignum gegn KA/þór en lakari gegn Val.

´

KA/Þór-ÍBV, 23-22 (13-12)

Markaskorarar ÍBV voru:

Hekla 7, Ester 7, Hildur 4, Sæunn 3 og Sonata 1.

Markaskorarar KA/Þór voru:

Sandra 6, Lilja 6, Katrín 5, Ester 4 og Auður 2.

 

ÍR-ÍBV, 25-25 (12-14)

Markaskorarar ÍBV voru:

Sæunn 8, Hildur 6, Sonata 5, Ester 4 og Hekla 2.

Markaskorarar ÍR voru:

Þórey 6, Rebekka 6, Dea 4, Hildur 4, Dagmar 3 og Íris 2.

Birna stóð sig vel í markinu í leikjunum eins og hennar er von og vísa þegar hún er heil heilsu.