Fótbolti - Kristján Georgsson og Óðinn Sæbjörnsson ráðnir þjálfarar 2.flokks kvenna

20.jan.2005  21:30
Kristján Georgsson og Óðinn Sæbjörnsson hafa verið ráðnir þjálfarar 2.flokks kvenna í knattspyrnu. Þeir félagar hafa séð um æfingar flokksins undanfarnar vikur og munu stjórna liðinu á komandi knattspyrnutímabili. Báðir eru þeir vel kunnugir úr knattspyrnuheimi okkar Eyjamanna og hafa þeir spilað leiki með meistaraflokksliði ÍBV, en lið KFS hefur notið krafta þeirra undanfarin misseri.
 
Kristján, eða Kiddi Gogga, hóf þjálfunarstörf hjá ÍBV sl. vor og nú er hann við stjórnvölinn hjá nokkrum yngri flokkum ÍBV. Síðasta sumar náði hann m.a. Íslandsmeistaratitli með B-liði 4.flokks kvenna auk þess sem A-liðið hafnaði í 2.sæti. Þá unnu lið undir hans stjórn einnig titla á Vöruvalsmóti ÍBV sem og Gullmóti Breiðabliks.
 
Óðinn stjórnar, auk 2.flokks, liði 3.flokks kvenna eins og hann gerði síðasta sumar og komust þær þá upp um deild með því að sigra B-riðil Íslandsmótsins. Þá komust þær í úrslitakeppnina en töpuðu báðum leikjum sínum þar.
 
Knattspyrnuráð kvenna býður þá velkomna til starfa og væntir mikils af starfi þeirra. Það er von okkar að þeir nái því besta úr þeim mikla efnivið sem félagið á í yngri flokkum kvenna í knattspyrnu og að ÍBV festi sig endanlega í sessi sem stórveldi í kvennaknattspyrnunni.