Stefnumótun

Inngangur

 
Megintilgangur með útgáfu þessa rits er að móta stefnu í barna- og unglingaþjálfun hjá ÍBV-íþróttafélagi knattspyrnudeild. Stefnumótunin er fyrst og fremst fyrir foreldra en höfundi fannst þurfa að virkja þá meira í tengslum við barna- og unglingastarfið. Einnig er ritið ætlað þjálfurum, stjórnarmönnum og iðkendum.
 
Stefnumótunin er ekki endanleg heldur verðum við að vera dugleg við að gagnrýna okkur sjálf og þróa okkur þannig að við getum verið sátt. Skipuritið á að vera leiðbeinandi fyrir þjálfara og foreldra. Þar koma fram starfslýsingar þjálfara og þær áherslur sem við leggjum á í þjálfun.
 
Þjóðfélagið hefur breyst mikið á undanförnum áratugum. Það hefur haft sín áhrif á knattspyrnu eins og aðra þætti þjóðlífsins. Fyrir nokkrum áratugum léku krakkar sér í fótbolta á túnum og á leikvöllum eða jafnvel á götunni. Krakkar léku sér áður en þau fóru í skólann, síðan í frímínútum og svo eftir skólann, sex til sjö daga vikunnar. Það voru engir fullorðnir nálægt, engir þjálfarar eða foreldrar sem tengdust þessum ,hverfisfótbolta” nema í einstaka tilfellum reiður nágranni! Á þennan hátt æfðu krakkarnir alla þá þætti sem koma fyrir í knattspyrnuleik. Í dag eru tímarnir breyttir eins og allir vita, auðvitað eru þeir til sem eru alltaf með boltann á tánum en hlutirnir hafa breyst. Áhugamálin eru fleiri og sjónvarp og tölvur taka æ meiri tíma frá börnunum. Vegna þessa þarf þjálfunin að vera markvissari en hún var fyrir nokkrum áratugum. Við þurfum að æfa meira og gæðin þurfa að vera meiri. Einnig þurfum við að hvetja börnin til að æfa sig sjálf í garðinum heima eða á leikvellinum. Það má því segja að ungur knattspyrnumaður í dag eyði minni tíma í fótbolta en foreldrar hans gerðu á hans aldri!
 
Íþróttir eru, eins og allir vita, forvarnarstarf og við leggjum mikla áherslu á að þjálfararnir hjá Knattspyrnufélaginu séu uppalendur. Við þjálfararnir viljum gera iðkendur betri í íþrótt sinni en við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að okkar helsta hlutverk er að búa til einstaklinga sem koma til með að njóta sín í þjóðfélaginu seinna meir. Við erum kennarar! Þess vegna leggjum við áherslu á jafnrétti. Við viljum finna verkefni handa öllum iðkendum burt séð frá getu viðkomandi iðkenda. Við viljum verðlauna þá sem eru duglegir. Mæting á æfingar skiptir miklu máli og þeir sem stunda æfingar illa fara ekki í keppni.
 
Að sjálfsögðu viljum við einnig búa til afreksmenn í knattspyrnu. Marga unga knattspyrnumenn dreymir um að verða atvinnumenn í knattspyrnu. Við viljum leggja þessum iðkendum lið og hjálpa þeim við að uppfylla draum sinn. Þess vegna höfum við mótað afreksstefnu sem miðar að því að finna verkefni handa þeim iðkendum sem skara fram úr.
 
Það hefur margt breyst í unglingastarfinu hjá ÍBV-íþróttafélagi á undanförnum mánuðum. Í dag er gerð tilraun til þess að reka unglingastarfið eitt og sér í fyrsta skipti þannig að það er í raun fjárhagslega sjálfstætt. Breytingarnar eru miklar en við vonum að þetta eigi eftir að skila betri árangri og betra skipulagi fyrir vikið. IBV greiðir í íslandsmót Herjóf og rútu fyrir iðkendur, þjálfara og fararstjóra.
 
IBV-íþróttafélag heldur á hverju sumri frábær knattspyrnumót.  Um miðjan júní fer fram Pæjumót TM fyrir 5.flokk kvenna og í lok júní fer fram Shellmót fyrir 6.flokk drengja.
 
Æfingaraðstaða félagsins er mjög góð. Yfir vetrarmánuðina æfir félagið innandyra í hinni glæsilegu Eimskipshöll en á sumrið æfum við á Þórs og Týsvelli.
 
 
 

1. Markmið félagsins

Helsta markmið félagsins er að gefa öllum jöfn tækifæri til að stunda knattspyrnu. Þetta þýðir í raun að við erum tilbúnir að taka við öllum þeim sem vilja stunda knattspyrnu hjá okkur.
 
Eitt af helstu markmiðum félagsins er að öllum börnum og unglingum sem vilja stefna að árangri í keppnisíþróttum verði skapaðar aðstæður til þess þegar þau hafa þroska til. Einnig að öll börn og unglingar sem vilja stunda íþróttir til þess að svala félagsþörf sinni fái að stunda íþróttir við sitt hæfi.
 
Markmið félagsins er að fjölga iðkendum, þó sérstaklega í kvennaflokkunum. Það er staðreynd að kvennaknattspyrnu hefur ekki verið gerð jafn góð skil hjá félögunum og karlaknatttspyrnu. Þessu viljum við breyta. Við þurfum því að gera sömu kröfur til stúlkna og drengja og sinna þeim vel með góðri þjálfun og sömu ákefð og hjá strákunum. Einnig þurfum við að koma í veg fyrir það mikla brottfall sem verður hjá stúlkum í 2. og 3.flokki kvenna. Brottfall er einnig mikið hjá drengjum í 4. og 3.flokki karla.
 
Helstu ástæður fyrir brottfalli úr íþróttum :
 
 • Einhæfur félagsskapur
 • Of mikil áhersla á keppni og árangur
 • Óánægja með eigin getu
 • Óánægja með þjálfara
 • Meiðsli
 • Fjárhagur foreldra
 • Ekki nægileg hvatning foreldra
 Eitt stærsta markmið barna- og unglingastarfsins er að skila leikmönnum upp í meistaraflokk félagsins. Flesta unga íþróttaiðkendur langar til að spila með meistaraflokki ÍBV og að sjálfsögðu er það eitt að markmiðum okkar að sjá til þess að skila ungum leikmönnum upp í meistaraflokk.
  
1.1. Knattspyrnuleg markmið ÍBV-íþróttafélags
 Markmið barna- og unglingaþjálfunar er þróun og þroski líkamlegra, andlegra og félagslegra þátta sem eru mikilvægir fyrir fullorðinsárin. Langtímamarkmið í þjálfun barna og unglinga er að skapa áhuga á íþróttum sem endist ævilangt.
  
Í sjálfu sér er mikilvægast af öllu að börnin stundi íþróttir. Við erum fyrst og fremst að ala upp íþróttamenn í yngstu flokkunum fremur en knattspyrnumenn. Að sjálfsögðu er eitt stærsta markmið okkar að skila iðkendum upp í meistaraflokka félagsins en önnur markmið eru góð og gild.
 
Þjálfararnir hjá ÍBV líta á sig fyrst og fremst sem uppalendur, það er til lítils gagns að vera góður í knattspyrnu ef allt annað vantar. Þar á ég við jákvæðni og þann félagslega þroska sem við leggjum áherslu á.
 
Við leggjum áherslu á að finna verkefni handa öllum iðkendum. Það vill oft verða að þeir getuminni fái færri verkefni en við ábyrgjumst verkefni handa öllum iðkendum sem stunda æfingar vel. Hins vegar leggjum við áherslu á það að þeir sem stunda æfingar vel ganga fyrir þeim sem stunda æfingar ílla.
 
Við leggjum mikla áherslu á góða mætingu og stundvísi. Það þarf að vera traust á milli þjálfara og iðkenda þannig ef að iðkendur séu forfallaðir þá láti þeir vita af sér á sama hátt og gert er þegar viðkomandi forfallast í skóla.
 
Hins vegar er það alveg ljóst að knattspyrna er áhugamál og að grunnskólinn gengur fyrir. Þannig ætti þróunin að verða sú að ef iðkendur sinna skólanum illa þá fái þeir ekki að koma á æfingu fyrr en hlutirnir eru komnir í lag! Með þessu getum við bætt árangurinn í íþróttinni og í skólanum.
 
Við hjá ÍBV-íþróttafélagi leggjum áherslu á að börnin fái æfingatíma við sitt hæfi. Þannig eiga yngstu börnin að byrja æfingar strax eftir skóla á veturna en þau eldri stunda æfingar seinni hluta kvöldsins. Með einsetningu grunnskólanna í Eyjum þá ætti þróunin að verða sú að yngstu börnin geti lokið tómstundastarfi sínu fyrir kl.17.00. Þetta kemur til með að efla fjölskylduna og auka þann tíma sem foreldrar geta verið með börnum sínum.
 
Það er stefna okkar að á sumrin verði yngstu flokkarnir á æfingu á morgnana en eldri flokkarnir í eftir miðdegi. Með þessu erum við í raun að verða við óskum foreldra sem vilja gjarnan að börnin séu búinn á æfingum þegar þau koma heim úr vinnunni! Þetta auðveldar okkur einnig skipulag á grasvöllum félagsins og minnkar álagið á kvöldin.
 
Við viljum leggja áherslu á að finna verkefni sem hæfir þroska barnanna. Í einstaka tilfellum viljum við færa iðkendur upp um árgang eða niður um árgang. Þetta er hins vegar aðeins gert í samráði við foreldra viðkomandi, þjálfara og Barna- og unglinganefnd. Ef allir eru sáttir við niðurstöðuna þá er hægt að færa viðkomandi iðkenda um árgang. Í dag höfum við bæði iðkendur sem hafa verið færðir upp eða niður um árgang allt eftir þroska viðkomandi aðila. Við teljum að með þessu þá náum við að finna verkefni sem miðast við þroska viðkomandi en ekki lífaldur. Í einstaka tilfellum þarf að skipta leikmönnum í ákveðna hópa vegna þess hvernig aldursskiptingin er í hópnum. Ef við erum til að mynda með 30 leikmenn á yngra ári en einungis 10-15 á eldri ári þá viljum við færa einhverja iðkendur upp til þess að viðkomandi hópar fái betri nýtingu á æfingunni. Við viljum miða okkur við það að við séum ekki með fleiri en 20 iðkendur á hvern þjálfara. Þess vegna er það stefna okkar að fjölga hópunum eða dreifa þeim þannig að hver iðkandi fái betri kennslu!
 
Viðhorf okkar til keppni er einfalt. Við viljum að börnin keppi í mótum og keppni sem slík er það sem börnin vilja en hins vegar er ekki sama hvernig keppnin er framreidd. Það væri til lítils að æfa eingöngu en að keppa ekki neitt. Keppni er mælikvarði á getu. Hvort sem er um æfingarleiki eða Íslandsmót að ræða þá er keppni nákvæmlega sama og próf í skólanum. Mælikvarði á getu. Hins vegar er það áherslan á sigra og það að vinna titla sem er hættuleg. Sem þjálfari getur maður verið ánægður eftir leik sem maður tapar en óánægður eftir leik sem þú vinnur. Þetta snýst um frammistöðu! Þjálfari miðar við það að ná ákveðinni frammistöðu í leikjum en ekki úrslitum. Framfarir skipta mestu máli og þær verða mestar á æfingum, því æfingar eru undirbúningur fyrir keppni. Börn og unglingar verða að læra hvernig á bæði að taka sigri og ósigri.
 

2. Keppni í yngri flokkum

 Mikið hefur verið rætt og ritað um keppni í yngri flokkum í íþróttum. Íþróttasamband Íslands hefur lagt áherslu á það að minnka keppni í yngstu flokkum íþrótta. Þeir fordæma þau félög sem leggja áherslu á að vinna titla og hampa ákveðnum einstaklingum innan liðanna fyrir frammistöðu sína.
 
Umræðan ein um þessi mál hefur gert það að verkum að áherslan á sigur í keppni hefur minnkað, þjálfarar leyfa frekar öllum leikmönnum að taka þátt í leiknum í stað þess að leggja áherslu á að vinna leikinn.
 
Öll börn og unglingar verða að læra að tapa og sigra. Keppni sem slík á að þroska börnin. Keppni er próf á getu liðsins og að sjálfsögðu á ákveðna einstaklinga. Börn og unglingar vilja keppa! Það bíða allir eftir tækifærinu til að fara í búninginn og sanna sig. Lykillinn að góðri þjálfun er góður undirbúningur! Góður undirbúningur þýðir að þegar í keppni er komið þá sjá börnin og unglingarnir um leikinn en ekki þjálfarinn. Það er því það sem fer fram á æfingum sem skilar sér í keppni. Því betur sem maður undirbýr lið því meiri líkur eru á árangri. Árangur er ekkert annað en að ná settum markmiðum, það getur verið 1.sæti eða 5.sæti eða jafnvel 10.sæti í stóru móti allt eftir því hvernig lið maður er með í höndunum!
 
Við hjá ÍBV höfum aukið æfingaleiki á síðastliðnum árum. Við búum við þær aðstæður að við erum eina liðið á svæðinu og því þurfum við að leggja í ferðalög til að spila þessa leiki. Við förum upp á land í þessa leiki þetta gerum við til að stytta vetrartímabilið hjá okkur sem er nú nógu langt.
 
Yngstu flokkarnir; 7.flokkur karla og 7.flokkur kvenna ættu aðeins að spila æfingarleiki og síðan að taka þátt í 2-3 vinamótum sem eru spiluð á einum degi. Þá er hefð fyrir því að 7.flokkur karla taki þátt í Norðurálsmóti ÍA og að 7.flokkur kvenna taki þátt í Símamóti Breiðabliks, bæði þessi mót eru helgarmót. Einnig eru svokölluð vinamót sem taka einn dag og síðan æfingaleikir. Í 5.flokki karla og 5.flokki kvenna er orðið meira um verkefni í opinberum mótum eins og í Faxaflóamóti og í Íslandsmóti, auk N-1 móts á Akureyri og Rey-cup móti Þróttar. Í elstu flokkunum er nóg af verkefnum en Íslandsmótið tekur allan sumartímann. 
 
2.1. Skipting í aldursflokka
Samkvæmt reglugerð Knattspyrnusambands Íslands um knattspyrnumót er eftirfarandi skipting í flokka hjá drengjum og stúlkum:
 
2.1.1.
2.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau verða 17 ára og fram til þess almanaksárs er þau verða 19 ára og að því meðtöldu.
  
3.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau verða 15 ára og fram til þess almanaksárs að þau verða 16 ára og að því meðtöldu.
  
4.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau  verða 13 ára og fram til þess almanaksárs er þau verða 14 ára og að því meðtöldu.
  
5.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau verða 11 ára og fram til þess almanaksárs er þau  verða 12 ára og að því meðtöldu.
  
6.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau verða 9 ára og fram til þess almanaksárs er þau verða 10 ára og að því meðtöldu.
  
7.flokkur: Frá og með því almanaksári er þau verða 7 ára og fram til þess almanaksárs er þau verða 8 ára og að því meðtöldu.
 
8.flokkur. Frá og með því almanaksári er þau verða 5 ára og fram til þess almanaksárs er þau verða 6 ára og að því meðtöldu.
 
  

3. Starfslýsingar 

3.1. Starfslýsing Barna- og unglinganefndar
Barna- og unglinganefnd ÍBV-íþróttafélags starfar samkvæmt ákvörðun stjórnar ÍBV-íþróttafélags. Nefndin er skipuð fimm aðilum og er einn aðili fulltrúi stjórnar félagsins.
 
Nefndin skal funda reglulega og eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Yfirþjálfari yngri flokkanna má sitja  fundi nefndarinnar og hefur þar tillögurétt og málfrelsi en eigi atkvæðisrétt.
 
Skipa skal formann nefndarinnar og boðar hann til funda og stýrir þeim. Skipa skal ritara nefndarinnar sem heldur gjörðabók um alla fundi. Fulltrúi stjórnar sér síðan um að koma fundagerðum til stjórnar. Nefndin skal skila skriflegri skýrslu til stjórnar félagsins í lok tímabils. Í upphafi tímabils skal nefndin skila inn fjárhagsáætlun til stjórnar.
  
Eitt meginhlutverk nefndarinnar er að halda utan um starfsemi yngri flokka og vera yfirþjálfara til stuðnings í hans starfi. Nefndin starfar eftir stefnu ÍSÍ um barna- og unglingaíþróttir. Yfirþjálfari félagsins sér um að henni sé framfylgt. Þjálfarar geta stuðst við Kennslu- og æfingaskrá sem Janus Guðlaugsson gerði fyrir KSÍ árið 1995 og kennslu og æfingaskrá eftir Jón Ólaf Daníelsson framkvæmdarstjóra unglingaráðs. Þjálfurum ber að skipuleggja vinnu sína og geta þar stuðst við áætlanir sem er að finna í Kennslu- og æfingaskránni. Leggja skal áherslu á að auka félagslega þáttinn í starfinu. Taka skal upp virkt eftirlit með vinnu þjálfara.
 
Nefndin starfar eftir vímuvarnastefnu ÍBV og leggur sitt af mörkum við að halda henni á lofti gagnvart öllum þeim er koma að starfi barna- og unglingaknattspyrnunnar í Eyjum.
  
Að öðru leyti eru helstu hlutverk nefndarinnar og þjálfara þessi:
 •  Að skipa foreldraráð fyrir hvern flokk
 •  Að skipa fjáröflunarnefnd vegna utanlandsferða
 •  Að skipuleggja og stýra fjáröflunum
 •  Að hjálpa til við mótahald
 •  Að auka félagslega þáttinn í starfinu
 •  Að gefa reglulega út fréttabréf til foreldra
 •  Að auka iðkendafjölda
 •  Að halda utan um og skipuleggja uppskeruhátíð
 •  Að skipuleggja fræðslukvöld á vordögum fyrir 13-16 ára iðkendur í samvinnu við önnur aðildarfélög ÍBV
 •  Að móta stefnu í æfingagallamálum og leggja þar ákveðnar línur vegna keppnisferða
 3.2. Þjálfaramenntun
 Barna- og unglinganefnd gerir sömu kröfu til þjálfaramenntunar knattspyrnuþjálfara og Knattspyrnusamband Íslands.
 
Eftirfarandi kröfur eru gerðar til þjálfara:
  
Meistaraflokkur karla:        UEFA-A
Meistaraflokkur kvenna:    UEFA-A 
2.flokkur karla og kvenna: UEFA-B 
3.flokkur karla og kvenna: UEFA-B
4.flokkur karla og kvenna: UEFA-B  
Ef þjálfari er ráðinn án þess að hafa viðurkennd réttindi þá skal hann sækja þau námskeið sem upp á vantar á komandi tímabili.
  
Allir aðstoðarþjálfarar félagsins þurfa að taka að lágmarki A-stigs námskeið KSÍ.
  
Yfirþjálfari og unglingaráð hefur umsjón með þjálfaramenntun þjálfara og sér um umsóknir varðandi styrki fyrir þjálfara á viðkomandi námskeið.
 
3.2.1. Starfslýsing yfirþjálfara
Yfirþjálfari hefur yfirumsjón með öllu unglingastarfi félagsins í samráði við Barna- og unglinganefnd félagsins, en undir nefndina heyrir 3.flokkur og yngri. Yfirþjálfari skal tryggja að æfingaáætlanir séu gerðar og kynntar iðkendum og foreldrum þeirra. Þá skal yfirþjálfari tryggja að eftir þeim áætlunum sé farið. Yfirþjálfari leggur fram tillögur fyrir Barna- og unglinganefnd um ráðningu þjálfara en endanleg ráðning er í höndum unglingaráðs.
  
Yfirþjálfari skal sjá um alla stjórnsýslu vegna þeirra flokka sem hann hefur yfirumsjón með. Í því felst að yfirþjálfari ásamt þjálfara hvers flokks sér um undirbúning fyrir allt mótahald, ferðatilhaganir, undirbúning fyrir fjáraflanir og yfirleitt allt það sem gera þarf í samvinnu við foreldraráð og Barna- og unglinganefnd. Yfirþjálfari skal sjá um samskipti við foreldra og foreldraráð og tryggja að þau verði með eins góðu móti og frekar er unnt. Þá starfar yfirþjálfari að undirbúningi og hefur umsjón með skráningum vegna þeirra unglingamóta sem fram fara á vegum félagsins. Hversu marga flokka yfirþjálfari þjálfar er samkomulagsatriði milli hans/hennar og unglingaráðs.. Jafnframt aðstoðar hann/hún aðra þjálfara þegar nauðsynlegt er og því verður við komið. Yfirþjálfari gæti einnig séð um séræfingar fyrir leikmenn í 2.flokki og unga leikmenn í meistaraflokki í samráði við þjálfara meistaraflokks ef eftir því væri leitað.
 
Yfirþjálfari heldur reglulega fundi með þjálfurum, þar sem fjallað er um málefni flokkanna og iðkendur.
 
Yfirþjálfari skal sjá til þess að allir þjálfarar haldi skýrslu um gang mála hjá hverjum flokki. Yfirþjálfari skal vera í forsvari gagnvart K.S.Í. og öðrum sérsamböndum.
  
Yfirþjálfari skal boða foreldrafundi í öllum flokkum og sitja þann fyrsta fyrir áramót á hverju ári. Yfirþjálfari skal marka langtímastefnu í samvinnu við Barna- og unglinganefnd er varðar uppbyggingarstarf yngri flokka félagsins.
  
3.2.2. Starfslýsingar og skyldur þjálfara
 
Stjórnun æfinga:
 
1. Þjálfari skal halda leikmannaskrá þar sem skráðar eru upplýsingar um þá sem stunda æfingar reglulega. Í skránni skal koma fram nöfn, kennitölur, heimilisföng og símanúmer iðkenda. Afrit af lista skal afhenda framkvæmdarstjóra unglingaráðs.
 
2. Þjálfari skal skipuleggja æfingar fyrirfram.
 
3. Þjálfari skal mæta stundvíslega á allar æfingar. Ef hann forfallast skal hann útvega mann í sinn stað. Staðgengill má ekki vera undir 18.ára aldri.
 
4. Þjálfari ber ábyrgð á boltum, keilum, sjúkratösku og vestum síns flokks og á að sjá til þess að þessir hlutir týnist ekki.
 
5. Þjálfari skal halda vinnubók sem lýsir þjálfun hópsins og einstakra leikmanna þ.m.t. mat á stöðu og getu allra leikmanna. Vinnubók þessari skal skilað til yfirþjálfara að loknu starfsári.
 
Stjórnun leikja:
  
1. Þjálfari ber að taka tillit til æfingasóknar og gefa öllum sem greiða æfingagjöld og stunda æfingar tækifæri til að spreyta sig í leikjum liðsins, hvort sem er á æfingum eða í keppni.
  
2. Þjálfari er fyrirmynd leikmanna og skal haga sér eftir því. Þjálfari skal gæta þess að framkoma, talsmáti og hegðun leikmanna sé ÍBV-ara sæmandi. Þjálfara ber að koma fram af kurteisi við dómara og koma í veg fyrir óæskilegar athugasemdir frá aðstandendum leikmanna eða forráðamönnum í garð starfsmanna leikja.
  
Önnur störf:
 
1. Þjálfari skal halda foreldrafund í upphafi tímabils.
 
2. Þjálfari skal ekki einungis sjá um þjálfun hópsins heldur einnig sjá um að hópurinn hittist og geri eitthvað saman í frístundum sínum.
 
3. Þjálfari má ekki neyta áfengis eða tóbaks á æfinga- og keppnissvæði ÍBV.
 
3.2.3. Félagslegi þátturinn
 
Knattspyrna er hópíþrótt þar sem einstaklingar innan hans þurfa að samlagast ef að árangur á að nást. Félagslegi þátturinn á það til að gleymast í þjálfuninni þar sem þjálfurum finnst oft nóg að leikmenn hittist á æfingum. Til þess að leikmenn kynnist betur þá þurfa þeir einnig að hittast utan æfinga til að bæta andann í hópnum.
 
Þetta er hægt að gera á ýmsan hátt. Það er hægt að fara í bíó, keilu, sund og fleira auk þess sem hægt er að hafa videókvöld, borða pizzu saman eða hafa spilakvöld. Að sjálfsögðu er margt annað sem kemur til greina.
 
Oft þarf að gera eitthvað í þessum dúr til þess að leikmönnum líði vel og þeim finnist þeir vera hluti af hópnum. Það má ekki gleyma því að margir iðkendur eru í knattspyrnu nær eingöngu upp á félagsskapinn og það ber að virða það! Þjálfarar verða því að vera vakandi fyrir því að rækta félagslega þáttinn í þjálfuninni og reyna þannig að auka ánægju iðkenda.
 
3.3. Foreldraráð
 
Á hverju hausti eru stofnuð foreldraráð í yngri flokkunum hjá ÍBV. Haldnir eru foreldrafundir með þjálfurum flokka og yfirþjálfara. Þrír aðilar mynda foreldraráð í hverjum flokki. Það hefur gengið greiðlega að stofna foreldraráð í yngstu flokkunum en hins vegar nokkuð erfiðlega í 4.flokki karla og síðan 3.flokki karla .
 
Helstu verkefni foreldraráða eru að halda utan um fjáraflanir fyrir viðkomandi flokk. Í dag fara flestar fjáraflanir í gegnum Barna- og Unglinganefnd þó svo að nýjar hugmyndir séu alltaf vel þegnar. Einnig eru foreldraráðin tengiliðir iðkenda við þjálfara og svo við aðra foreldra.
  
Foreldraráð sitja ekki reglulega fundi en þó er eins og áður sagði mikil vinna sem liggur á bak við mótin sem fram fara á Akureyri, Akranesi, Reykjavík og Kópavogiá sumrin og einnig þær fjáraflanir sem eru vegna keppnisferða innanlands og erlendis.
  

4. Forvarnir

 
Íþróttir og vímuefni eiga ekki samleið. Eins og fram kemur í Vímuvarnarstefnu félagsins þá er það yfirlýst stefna ÍBV í vímuvarnarmálum að íþróttir og vímuefni eiga ekki samleið.
 
Á meðan íþróttir sjá um að byggja upp heilbrigða sál í hraustum líkama þá sjá vímuefni um að brjóta niður líkama og sál.
 
Knattspyrnuþjálfarinn er fyrirmynd margra iðkenda og þess vegna þarf hann að fræða börn og unglinga um áhrif áfengis, tóbaks og fíkniefna á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum. Með þessu aukum við þekkingu iðkenda á vímuefnum.
 
Það er alveg ljóst að fíkniefnaneysla ungs fólks er orðinn stór vandi á Íslandi sem og annars staðar. Íþróttahreyfingin hefur frá upphafi lagt grunn að heilbrigði í landinu en kröfur á íþróttafélögin eru alltaf að aukast. Mikilvægi íþrótta hefur aukist síðastliðin ár vegna aukinnar kyrrsetu og einhæfni í líkamsbeitingu og starf íþróttahreyfingarinnar hefur því almennt forvarnargildi með tilliti til líkamlegs hreysti og heilbrigðis. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að íþróttir hafi mikið forvarnargildi gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.
  
Eins og áður hefur komið fram eru þjálfarar barna og unglinga í lykilhlutverki, en þeir hafa stór áhrif á iðkendur með orðum sínum og verkum. Því mun meiri áhersla sem þeir leggja á skaðsemi vímuefna , þeim mun meiri áhrif mun starfið hafa í baráttunni við vímuefnin.
 
4.1. Vímuvarnarstefna ÍBV-íþróttafélags
  
Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarið um notkun vímuefna á meðal unglinga og oftar en ekki hefur umræðan borist að íþróttunum sem lið í forvarnarstarfi gegn vímuefnum. ÍBV-íþróttafélag telur sig skylt að taka þátt í þessari umræðu og vinna gegn notkun þessara efna og þá sérstaklega innan sinna vébanda. Stjórn ÍBV er sammála um að undir hugtakið vímuefni falli einnig áfengi og tóbak og sér ekki þörf á að nefna það sérstaklega þegar rætt er um vímuefni og varnir gegn notkun þeirra eða fræðslu um skaðleg áhrif þeirra.
 
Yfirlýst stefna ÍBV í vímuvarnarmálum er og verður: 
Íþróttir og vímuefni eiga ekki samleið.
 
Til að fylgja þessari stefnu eftir leggur stjórn ÍBV fram eftirfarandi tillögur til að framfylgja þessari stefnu meðal sinna aðildarfélaga.
 •  Öll neysla vímuefna á íþróttaferðalögum og á öðrum opinberum vettvangi tengt íþróttastarfi verði bönnuð.
 •  Aðildarfélög ÍBV-íþróttafélags skuli leitast við að ráða til sín hæfa þjálfara sem hafi fullnægjandi og viðeigandi menntun til að starfa við þjálfun á vegum ÍBV. Leggja skal áherslu á það við þjálfara að þeir séu fyrirmyndir á þessu sviði og senda þá á námskeið tengd þessu viðfangsefni.
 •  Æ meiri kröfur eru gerðar til íþróttafélaga að þjálfarar séu vel menntaðir og starf þeirra skili sem bestum árangri. Með því að leggja áherslu á vel menntaða þjálfara sem veljast til starfa innan íþróttahreyfingarinnar í Eyjum munu aðildarfélög ÍBV-íþróttafélgas afla sér trausts og virðingar meðal almennings en kröfur þeirra um innihald og gæði þess starfs sem unnið er í íþróttahreyfingunni hafa farið vaxandi og ekki síst vegna þess hversu þýðingamikið uppeldisstarf er hér um að ræða. 
Stjórn ÍBV skal einu sinni á ári standa fyrir námskeiði fyrir þjálfara og leiðbeinendur um forvarnir. Skal þar m.a. tekið fyrir:
 • Almennar forvarnir
 • Heilbrigt líferni, mataræði, svefn o.fl.
 • Hlutverk þeirra sem uppalendur og fyrirmyndir.
 • Reglusemi, snyrtimennsku, stundvísi og jákvætt hátterni.
 • Vímuefni
 • Ofbeldi, einelti o.fl.
  · Stjórn ÍBV skal beita sér í því að notkun vímuefna verði bönnuð í íþróttamannvirkjum og félagsheimilum sem tengjast íþróttastarfi og íþróttahreyfingunni. Með þessu er ÍBV að fylgja eftir samþykkt ÍSÍ og nýjum tóbaksvararlögum sem samþykkt voru á Alþingi .
  
· Stjórn ÍBV í samvinu við íþrótta- og æskulýðsnefnd skal kanna þann möguleika að opna íþróttamiðstöðina á laugardagskvöldum þar sem unglingum gefst kostur á að dvelja þar við íþróttir eða aðra sambærilega tómstundaiðkun.
 
Einn liður í forvarnarvinnu íþróttahreyfingarinnar er að hvetja börn til að iðka íþróttir. En hvað fær börn til að stunda íþróttir?
 •  Foreldrar hvetja börn sín
 •  Svo þau fái næga hreyfingu
 •  Svo þau hafi eitthvað fyrir stafni
 •  Svo þau séu í öruggum höndum o.fl.
 •  Vinir hvetja vini
 •  Vegna þess að það er gaman
 •  Kennarar og þjálfarar hvetja börn
 •  Vegna þess að þau þekkja gildi íþrótta
 Út frá þessu er hægt að segja að þátttaka foreldra sé mikilvæg fyrir íþróttaiðkun barna, en hvernig er hægt að virkja foreldra til þátttöku?
 •  Með upplýsingum um starf félagsins
 • Með því að fá þeim afmörkuð verkefni 
Í tengslum við kynningu á vímuvarnarstefnu ÍBV þarf að halda á lofti gildi íþróttanna fyrir íslensk ungmenni og nota efni úr samnefndri könnun Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála sem gerð var árið 1992 og birt 1994, en þar kom fram:
  
Unglingar sem iðka íþróttir
 •  Reykja síður
 •  Drekka síður
 •  Neyta síður vímuefna
 •  Líður betur í skóla
 •  Hafa meira sjálfstraust
 •  Þjást síður af þunglyndi og kvíða
 •  Íþróttir bæta heilsuna
 •  Bættur hreyfiþroski
 •  Fyrirbyggjandi heilsuvernd
 •  Hollar lífsvenjur  
4.2. Áfengi og íþróttin þín
 
 1. Samstarf heila og tauga riðlast. Við það dregur úr viðbragðsflýti og hraða.
 
2. Einbeiting og samstilling vöðva skerðist. Við það dregur úr vöðvastyrk og sprengikraft.
 
3. Vínandi veldur aukinni mjólkursýrumyndun. Það orsakar þreytutilfinningu og skerðir samdráttarhæfni vöðvans.
 
4. Vínandi heftir súrefnisflutning með blóði og kemur í veg fyrir að nægilegt súrefni berist til vöðvanna, þegar þeir eru undir álagi.
 
5. Vínandi hindrar myndun blóðsykurs í lifur. Við það gætir þreytu fyrr en ella.
 
6. Endurheimt vítamína og steinefna seinkar. Áfengisdrykkja að lokinni keppni eða æfingu dregur úr þoli.
 
7. Vínandi heftir upptöku B og C vítamína. Það dregur úr þoli.
 
8. Vínandi dregur vatn úr líkamanum og stuðlar að auknu vökvatapi.
 
9. Aukin hætta á vöðvakrampa vegna aukins vökvataps.
 
10. Sjálfsagi og vilji er forsenda þess að ná árangri í íþróttum. Áfengi brýtur niður viljastyrk.
 
 

5. Markmið í tækni og leikfræðilegum atriðum einstakra flokka

 5.1. 7.flokkur karla, ( 8 ára og yngri )
 
Það er mikilvægt að taka vel á móti öllum iðkendum þar sem strákarnir eru að hefja sína íþróttaiðkun. Það þarf að veita þeim öryggi og einnig ánægju en þannig sköpum við aukinn áhuga á knattspyrnu og einnig traust á félaginu. Á þessum aldri hafa strákarnir mikla hreyfiþörf og því mikilvægt að nýta æfingatímann vel með góðri skipulagningu. Hreyfiþörfin er það mikil að strákarnir ættu ef að mögulegt er að stunda fleiri íþróttir en knattspyrnu. Íþróttir eins og fimleikar, sund og badminton eru íþróttir sem henta sérstaklega vel samhliða knattspyrnu en aðrar greinar eins og körfubolti og handbolti er einnig góðar og gildar. Á þessum aldri eigum við að hvetja foreldra til þess að leyfa börnunum að stunda sem flestar greinar en þó verður að gæta hófs í þessu eins og í öðru og varast ofálag.
 
Mikilvægt er að æfingarnar séu skemmtilegar og fjölbreyttar því að einbeiting er oft lítil á þessu aldursskeiði.
 
Helstu þroskaeinkenni:
 
 • Líkamlegir eiginleikar í mótun
 • Veik vöðvabygging með tilliti til hæðar
 • Erfiðleikar í samhæfðum hreyfingum
 • Ójafnvægi í líkamsburði
 • Lítil einbeiting
 • Stefnuleysi í þörfum og gerðum
 • Lítið sjálfstraust
 • Viðkvæmni
 • Leikgleði
 Meginmarkmið í þjálfun:
 • Tækni:
 • Að venjast bolta
 • Knattrak á ýmsa vegu, stefnubreytingar
 • Knattrak með gabbhreyfingu
 • Einfaldar leikbrellur
 • Innanfótarspyrna
 • Móttaka- innanfótar, il, læri
 • Sköllun úr kyrrstöðu
Leikfræði:
 
Leikrænir leikir
 
Leikæfingar, sérstaklega 1:1 með litlu álagi. Auðvelt að skora, stór mörk.
 
Leikæfingar, fáir í hverju liði með og án markmanns. Auðvelt að skora.
 
Helstu leikreglur
  
5.2 Tækni og leikfræðiþjálfun 6. flokks ( 9-10 ára )
Flestir strákarnir hafa kynnst íþróttinni í gegnum leiki og fjölbreyttar æfingar. Það þarf að hafa æfingar vel skipulagðar og fjölbreyttar vegna þess að hreyfiþörf er mikil og einbeiting frekar lítil. Vegna þess að ákveðið jafnvægi er komið á líkamsburð þá er gott að kenna tæknilega þátt knattspyrnunnar. Strákarnir ættu að læra grunntæknina á æfingum og hvernig hún nýtist síðan í keppni. Aukin áhersla á leikskilning og áræðni.
 
Það ætti að hvetja strákana til þess að stunda fleiri en eina íþróttagrein til þess að iðkendur en þannig ýtum við undir fjölhæfni iðkenda.
 
Helstu þroskaeinkenni:
 
 • Jafnvægi kemst á líkamsburð
 •  Beinabygging ekki fullþroskuð
 •  Aukin vöðvamótun og vöðvastyrkur
 •  Mikil geta til hreyfináms og samhæfingar
 •  Aðlögunarhæfni hjarta- og blóðrásarkerfis mikil ( alhliða þolþjálfun )
 •  Mótun einstaklings hafin
 •  Mikið sjálfstraust 
Meginmarkmið í þjálfun:
 
 • Tækni:
 • Að venjast bolta
 • Knattrak, framhald- ýmis afbrigði
 • Knattrak og einföld leikbrella
 • Spyrnur: Innanfótarspyrna, ristarspyrna ( bein og innanverð)
 • Sköllun úr kyrrstöðu og eftir uppstökk, halda bolta á lofti
 • Móttaka og stýring hárra bolta með innaverðum fæti
 • Móttaka-leggja áherslu á móttöku innafótar, banna móttöku með il!
 • Innkast
 
Leikfræði:
Markskot: úr kyrrstöðu, eftir knattrak, bolti skoppandi
 
Leikir til eflingar knatttækni og leikfræði, skallatennis og eltingaleikur með bolta
 
Leikið 1:1 með ýmsum afbrigðum
 
Leikið 2:1 með ýmsum afbrigðum
 
Leikæfingar þar sem fáir eru í liði
 
5.3 Tækni og leikfræðiþjálfun 5. flokks ( 11-12 ára )
 Það er enginn vafi að þetta er sá flokkur sem er móttækilegastur fyrir tækniþjálfun. Ein af ástæðunum er jafnvægi í líkamsburði og þar af leiðandi eru hreyfingar mjög góðar. Á þessum aldri eru strákarnir eru farnir að leita eftir viðurkenningu og aðdáun félaga og vina. Þeir vilja keppa í mótum og metast á æfingum, þeir sem eru góðir íþróttinni fá mikla viðurkenningu frá félögunum. Helsta markmiðið er enn þá að bæta knatttækni. Hægt er að gera nýjar og flóknar æfingar með bolta. Gott er að setja hverjum og einum markmið fyrir sig sérstaklega hvað varðar boltatækni. Á þessum aldri má vænta góðs árangurs sé rétt að þjálfuninni staðið. Hún þarf að vera vel skipulögð með tilliti til helstu þroskaþátta einstaklingsins og honum sköpuð verkefni við hæfi.
 
Helstu þroskaeinkenni:
 •  Jafnvægi í líkamsburðum
 •  Beinabygging ekki fullþroskuð
 •  Aukin vöðvamótun og vöðvastyrkur
 •  Besti hreyfinámsaldurinn
 •  Bestu skilyrði fyrir tækniþjálfun
 •  Aðlögunhæfni hjarta og blóðrásakerfis mikil ( alhliða þolþjálfun )
 •  Mikið sjálfstraust
 Meginmarkmið í þjálfun:
 
Tækni:
 •  Sendingar með jörðu og á lofti
 •  Sköllun eftir uppstökk af báðum og öðrum fæti, skallað að ákveðnu marki
 •  Móttaka jarðarbolta og stýring. Taka bolta með sér
 •  Móttaka hárra bolta og stýring. Taka bolta með sér
 •  Áhersla á sendingar viðstöðulaust, þ.e.a.s. í fyrsta
 •  Knattrak og leikbrellur (1:1)
 •  Samleikur af ýmsum toga sem lýkur með markskoti
 •  Halda bolta á lofti og skjóta síðan á mark
 Leikfræði
 
 • Markskot úr kyrrstöðu, eftir knattrak og samspil. Skallað að marki eftir fyrirgjöf.
 • Leikið 1:1 með ýmsum afbrigðum
 • Leikið 2:1 með ýmsum afbrigðum
 • Spilað út úr vörn, nota markmanninn
 • Mikilvægi þess að halda hraða á boltanum-sókn 
 • Mikilvægi þess að hægja á boltamanni-vörn
 •  Skallatennis ýmis afbrigði
 •  Leikæfingar þar sem fáir eru í liði( farið yfir undistöðuatriði liðssamvinnu)
 •  Leikfræði liðs; innkast, hornspyrna, aukaspyrna, vítaspyrna
 •  Kenna leikmönnum að hugsa um svæði bæði í vörn og sókn
 •  Undirbúa leikmenn á eldra ári undir keppni á 11 manna leikvelli
 5.4 Tækni og leikfræðiþjálfun 4. flokks ( 13-14 ára)
 
Á þessum aldri verða strákarnir kynþroska og því er um mjög erfitt þjálfunarstig að ræða. Strákarnir hafa lítið sjálfstraust og eru mjög viðkvæmir tilfinningalega séð. Hraður vöxtur handa og fóta samhliða beinalengingu skapa ákveðin vandamál, sérstkalega hvað varðar samhæfingu hreyfinga. Einstaklingur á oft í erfiðleikum með að hafa stjórn á hreyfingum sínum og það hefur oft áhrif á getu hans.
 
Þó að grunnþjálfun tæknilegra þátta ætti að vera lokið þá er nauðsynlegt að halda grunninum vel við með því að framkvæma grunntækniæfingar með flóknari útfærslum. Á þessum aldri er auðveldara að útskýra ýmis tæknileg og leikfræðileg atriði knattspyrnu, þar sem strákarnir hafa meiri skilning á fræðilegum þáttum en áður. Þessi aldur er mjög móttækilegur fyrir hraðaþjálfun, þolþjálfun og kraftþjálfunar vegna aukins vöðvamassa á unglingsárunum. Það er miklar breytingar á þessum aldri bæði andlega og líkamlega og því er nauðsynlegt að skapa drengjunum góðar félagslegar aðstæður innan félagsins.
 
Helstu þroskaeinkenni:
 
 • Hraður beinvöxtur
 • Misvægi búks og útlima
 • Erfiðleikar í samhæfingu
 • Kynþroski hefst
 • Almennt sálrænt óöryggi
 • Minnkandi sjálfstraust
 • Viðkvæmni
 • Skapsveiflur
 • Sjálflæg hugsun og skilningur
 • Sterkari þörf fyrir hrós og viðurkenningu
 • Samskipti við fullorðinna oft erfið
 • Óöryggi um eigið hlutverk
 Meginmarkmið í þjálfun:
 
Tækni:
 
 • Spyrnur og móttaka bolta æfðar undir pressu, í leikformi með ákveðin markmið
 •  Knattrak og leikbrellur æfðar undir pressu, í leikæfingum með ákveðin markmið
 •  Sköllun á ýmsan hátt, skallaleikir með samherja og mótherja
 •  Hoppspyrna
 •  Fyrirgjafir
 •  Lokið skal yfirferð og grunnkennslu allra tækniatriða knattspyrnu
 •  Halda bolta á lofti og skjóta á mark
 •  Leikfræði:
 •  Markskot af ýmsum toga;
 •  Eftir að hafa leikið á mótherja ( 1:1)
 •  Eftir móttöku á hlaupum og á þröngu svæði
 •  Eftir eina eða tvær snertingar
 •  Viðstöðulaust skot með jörðu og á lofti
 •  Leikfræði hóps, sóknarleikur;
 •  Hreyfing án bolta, aðstoð við knatthafa
 •  Undirstöðuatriði liðssamvinnu, í sókn; dýpt, fríhlaup, vídd, hreyfing, opna svæði,aðstoð.
 •  Ýmis konar samsetning liðs ( jafnmargir, fleiri, færri)
 Samleikur;
 •  Veggsending
 •  Knattvíxlun
 •  Framhjáhlaup
 •  Knattrak og sending ( þykjast senda og fara síðan)
 Leikfræði hóps, varnarleikur;
 
 • Gæsla maður á mann (1:1), þar sem leikmaður hefur bolta
 •  Gæsla maður á mann (1:1), þar sem leikmaður hefur ekki bolta
 •  Samvinna leikmanna, yfirtaka á leikmanni frá félaga
 •  Rangstaða- stíga sóknarmenn út, ýta út.
 •  Ýmis konar samsetning liðs ( jafnmargir í liði, færri, fleiri)
 •  Undirstöðuatriði liðssamvinnu, vörn:
 •  Dýpt, gæsla, loka svæði, samþjöppun, völdun.
Návígi:
 
 • Að komast inn í sendingu mótherja
 • Návígi (tæklingar), rennitækling
 • Pressa þar sem áhersla er lögð á rétta varnarstöðu
 • Leikfræði liðs, föst leikatriði:
 • Vítaspyrna
 • Rétt innkast og hreyfing leikmanna án bolta
 • Hornspyrna ( í sóknar- og varnarleik)
 • Aukaspyrnur ( beinar og óbeinar)
 5.5 Tækni og leikfræðiþjálfun 3.flokks ( 15-16 ára )
 
Á þessu tímabili kemst betra jafnvægi á hreyfingar, samhæfing hreyfinga verður betri vegna aukins vaxtar í vöðvum og líffærum sem leiðir af sér jákvæða þætti í þjálfuninni. Nauðsynlegt er að leikfræði sé æfð markvisst bæði á æfingum og utan æfinga. Þar er hægt að útskýra leikkerfi og áherslur í leikskipulagi enda hafa unglingar á þessum aldri meiri áhuga á á fræðilegum þáttum en áður. Það þarf að halda áfram að slípa tæknilega hæfileika en vegna aukis vöðvamassa er nauðsynlegt að leggja áherslu á hraða- og þolþjálfun. Leikskilningur skal hafður í fyrirrúmi með auknum leikfræðilegum og krefjandi æfingum í minni hópum. Kynna skal keppni- og afreksíþróttamennsku og þann hugsunarhátt sem er nauðsynlegur til að árangur náist. Afreksstefna félagsins hefst hjá drengjum í 3.flokki. Þjálfa þarf leikmenn í að setja sér markmið og þroska hjá sér metnað til árangurs. Sérhæfing skal hefjast á þessum aldri og því er nauðsynlegt að þeir leikmenn sem eru í fleiri en einni íþróttagrein fari að huga að því að velja sér eina íþróttagrein ef að viðunandi árangur á að nást. Félagsleg verkefni þurfa að skipa stóran sess en þau efla félagsþroska auka samkennd og samvinnu auk þess sem þau eru góð tilbreyting frá hefðbundnum æfingum.
  
Meginmarkmið í þjálfun:
 
Tækni:
 
 • Tækniatriði tengd leikæfingum og flóknum tækniæfingum, samsettar æfingar
 • Tækni einstaklings fínpússuð og fullkomnuð
 • Sköllun
 • Hoppspyrna
 • Fyrirgjafir eftir;
 • - einleik
 • - samspil, s.s. veggsendingu, knattvíxlun, framhjáhlaup, langar
 • sendingar
 • Fága og styrkja enn frekar þau tækniatriði sem þegar hefur verið farið yfir.
Leikfræði:
 
 • Leikfræði einstaklings
 •  Markskot af ýmsum toga
 • -eftir að hafa leikið á mótherja ( 1:1 )
 • - eftir móttöku á hlaupum og á þröngu svæði
 • - eftir eina og tvær snertingar
 • - viðstöðulaust eftir jörðu og á lofti 
Návígi
 
 • að komast inn í sendingu mótherja
 • návíg ( tæklingu ), rennitækling
 •  pressa ( rétt varnarstaða – ná knetti af mótherja)
Leikfræði hóps, sóknarleikur;
 • samleikur leikmanna, ýmis afbrigði ( veggsending, knattvíxlun, framhjáhlaup)
 • hreyfing án bolta, aðstoð við knatthafa
 •  undirstöðuatriði liðssamvinnu, sókn, dýpt, fríhlaup, vídd, hreyfing, opna svæði, aðstoð
 • skapa marktækifæri, markskot 
Leikfræði hóps, varnarleikur;
 
 • gæsla maður á mann ( 1:1 ), þar sem leikmaður hefur bolta
 • gæsla maður á mann ( 1:1 ), þar sem leikmaður hefur ekki bolta
 • svæðisvörn
 • undirstöðuatriði liðsamvinnu, vörn; dýpt, gæsla, lokun svæða, samþjöppun, völdun
 • samvinna leikmanna, yfirtaka á leikmanni frá félaga
 •  rangstaða
 • Ýmis konar samsetning liðs ( jafnmargir í liði, færri, fleiri) 
 
Undirstöðuatriði liðssamvinnu, vörn:
 •  dýpt, gæsla, loka svæði, samþjöppun, völdun
 Návígi:
 •  að komast inn í sendingu mótherja
 •  návíg ( tækling ), rennitækling
 •  pressa þar sem áhersla er lögð á rétta varnarstöðu
 Leikfræði liðs, föst leikatriði
 •  vítaspyrna
 • rétt innkast og hreyfing leikmanns án bolta
 •  hornspyrna ( í sóknar- og varnarleik )
 •  aukaspyrnur ( beinar og óbeinar ) 

6. Heilræði

 6.1. Góðir siðir fyrir foreldra:
1. Mætið bæði á leiki og æfingar, börnin æskja þess. 
2. Hrósið öllum leikmönnum meðan á leik stendur, ekki aðeins syni eða dóttur.
3. Hvetjið börnin bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs.
4. Berið virðingu fyrir störfum þjálfarans.
5. Lítið á dómarann sem leiðbeinanda barnanna, ekki gagnrýna ákvarðanir hans.
6. Hafið áhrif og hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau.
7. Spyrjið hvort leikurinn hafi verið skemmtilegur eða spennandi.
8. Leitið eftir réttum og skynsamlegum árangri.
9. Sýnið starfi félagsins virðingu, verið virk á foreldrafundum og þar sem umræður fara fram um þjálfun og markmið.
10. Gerið ykkur grein fyrir því að það eru börnin ykkar sem spila fótbolta. Ekki þið. Börn eru ekki fullorðið fólk.
 
6.2. Góðir siðir fyrir iðkendur:
1. Ég er stundvís, ég mæti a.m.k. 10 mín. fyrir æfingar og á réttum tíma í leiki.
2. Ég er jákvæður og í góðu skapi á æfingum og í leikjum, því mér finnst gaman í fótbolta
3. Ég mótmæli aldrei úrskurði dómara.
4. Ég kem kurteislega fram við mótherja, því ég vil að hann komi vel fram við mig. 
5. Ég legg mig alltaf 100 % fram.
6. Ég tek sigri með hóflegri gleði og tapi með jafnaðargeði.
7. Ég hjálpa samherjum eins og ég get á æfingum, í leik og hvar sem er.
8. Ég geng vel um búningsklefa, íþróttasali og íþróttavelli, bæði í Vestmannaeyjum sem og annars staðar þar sem ég kem sem mótherji, gestur eða áhorfandi.
9. Ég ber virðingu fyrir ÍBVbúningnum og geng snyrtilega frá honum eftir leiki. Sama gildir um aðrar eignir ÍBV.
10. Ég er í íþróttum fyrir sjálfan mig, af því að það er hollt og skemmtilegt en ég reyni líka alltaf að vera félaginu og mínum nánustu til sóma, innan vallar sem utan.
 

 Lokaorð

Í skýrslunni hefur verið fjallað um stefnu ÍBV-íþróttafélags í barna- og unglingaþjálfun. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir börn og unglinga að fá stuðning frá foreldrum bæði hvað varðar nám og íþróttaiðkun. Eins og í öðru þá skiptir máli að hvetja börnin bæði þegar vel gengur og ekki síst þegar á móti blæs.
  
Við vonum að ritið verði til þess að foreldrar nálgist félagið betur og taki enn meiri þátt í sjálfboðaliðastarfi sem á eftir að skila sér bæði til ykkar og barnanna.
 
f.h. ÍBV-íþróttafélags
  
________________________________
 
Gísli Hjartarson
Stefnumótun þessi tók í gildi í janúar 2002.
 
Jón Ólafur Daníelsson framkvæmdarstjóri yngri flokka yfirfór stefnumótunina og endurbætti í nóvember 2011
 
 
 
 
Heimildaskrá
 
Janus Guðlaugsson. 1995. Kennslu- og æfingaskrá fyrir barna- og unglingaþjálfun í knattspyrnu. Knattspyrnusamband Íslands, Reykjavík.
   
Þórdís Gísladóttir og Þráinn Hafsteinsson. 1991. Áfengi andstæðingur afrekanna. UMFÍ og Í.S.Í., Reykjavík.