Fótbolti - Alfreð Már Hjaltalín nýr leikmaður ÍBV

30.nóv.2017  22:32
ÍBV hefur komist að samkomulagi við Víking Ó. um kaup á Alfreð Má Hjaltalín
Alfreð hefur gert þriggja ára samning við ÍBV.
 
Alfreð er fæddur og uppalinn Hólmari. Hann æfði yngri flokkana með Snæfell til ársins 2009, þegar hann tók uppá því sumarið 2009 að fara í annan flokk KR. 
Daglega ferðaðist hann á æfingar frá Stykkishólmi til Reykjavíkur. 
Um haustið gekk hann til liðs við Víking Ó. Þar hefur hann leikið 74 leiki í 1. deild karla og 63 leiki í Pepsi-deild karla.
Ljóst er að um gríðarlega metnaðarfullan, dugmikinn og eljusaman leikmann er að ræða, sem kemur úr sambærilegu umhverfi. Þar sem harka og barátta eru allsráðandi.
Alfreð Már er fljótur kantur og/eða bakvörður og mun því nýtast liðinu sem góður liðstyrkur á komandi árum.
 
Shahab Zahedi
ÍBV er einnig gríðarlega stolt að segja frá því að félagið hefur náð að framlengja við framherjan öfluga Shahab. 
Shahab fékk leikheimild í leikmannaglugganum í sumar og skoraði fjögur mörk og lagði upp eitt í níu leikjum, en hann spilaði alls 482 mínútur í deildinni í sumar.
Hann kom vel inní lið ÍBV í fyrra, tók smá tíma að aðlagast en gerði svo varnarmönnum annara liða lífið leitt.
Ekki þarf að fjölyrða um það hversu gríðarlega mikill liðstyrkur það er fyrir ÍBV að halda leikmanni eins og Shahab næstu 3 árin.
 
Ljóst er að stefna félagsins er að setja saman samkeppnishæft lið til að keppa á öllum vígstöðum á næsta ári.