Fótbolti - Eiður Aron áfram hjá ÍBV

18.jan.2014  17:44

ÍBV gerir kaupleigusamning við Örebro út árið 2014

 

Í dag skrifaði Eiður Aron Sigurbjörnsson undir samning við ÍBV út árið 2014. Um er að ræða kaupleigusamning við Örebro í Svíþjóð, þar sem Eiður Aron hefur verið á mála, og á ÍBV á forkaupsrétt á leikmanninum á samningstímanum.

Eiður Aron lék með ÍBV á árunum 2009-2011 við góðan orðstír. Um mitt keppnistímabil árið 2011 gekk Eiður Aron til liðs við Örebro í Svíþjóð, en kom aftur til ÍBV fyrir keppnistímabilið 2013 á lánssamningi. Eiður Aron var fyrirliði ÍBV á síðasta tímabili og hefur leikið alls 74 leiki fyrir liðið og skorað í þeim 3 mörk. Þá hefur Eiður Aron leikið 10 leiki fyrir U-21 árs landslið Íslands.

 

Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segir mjög mikilvægt fyrir liðið að tryggja sér starfskrafta fyrirliðans Eiðs Arons á komandi keppnistímabili. „Eiður Aron var lykilmaður hjá ÍBV á síðasta tímabili og því afar mikilvægt fyrir okkur að hafa hann áfram í okkar herbúðum. Samningurinn við Örebro er þannig að við getum keypt Eið Aron á samningstímanum. Við ætlum okkur að gera betur en á síðasta tímabili og ráðning Eiðs Arons er mikilvægur liður í þeirri baráttu,“ segir hann.

 

Eiður Aron er mjög ánægður með að búið sé að ganga frá samningi við ÍBV. „Ég er mjög sáttur með að vera áfram hjá ÍBV. Ég átti gott tímabil með liðinu í fyrra og er búinn að bæta mig á mörgum sviðum knattspyrnunnar. Ég stefni á að gera enn betur með ÍBV í sumar,“ segir hann.

 

Hann segist ekki vera búinn að gefa atvinnumennskuna upp á bátinn, en það eina rétta í stöðunni hafi verið að koma aftur á heimaslóðir í Vestmannaeyjum fyrir síðasta keppnistímabil þar sem han átti erfitt uppdráttar með Örebro. „Það komu nokkur tilboð í mig frá öðrum liðum, en það kom ekkert annað til greina en að vera áfram hjá ÍBV. Mig langar til að sanna mig aftur og besti staðurinn til þess er á heimaslóðum í Eyjum. Við stefnum á að gera betur en á síðasta keppnistímabili og ég lít framtíðina hjá ÍBV björtum augum,“ segir Eiður Aron.

 

Áfram ÍBV!

 

Óskar Örn Ólafsson
formaður knattspyrnudeildar ÍBV