Fótbolti - Abel Dhaira semur við ÍBV til þriggja ára

20.des.2013  09:25

Samkeppni um markmannsstöðuna!

ÍBV hefur samið við úganska landsliðsmarkvörðinn Abel Dhaira og er samningurinn til þriggja ára. Abel er Eyjamönnum að góðu kunnur, enda lék hann með ÍBV keppnistímabilin 2011 og 2012 við góðan orðstír.
 Abel, sem er 26 ára, hefur leikið 14 A landsleiki fyrir Úganda og 37 leiki fyrir ÍBV.
Hann kemur frá Simba SC í Tanzaníu, en hann gekk í raðir þeirra er hann fór fór frá ÍBV eftir keppnistímabilið 2012. Abel er gríðarlega sterkur í loftinu og sýndi oft og tíðum frábær tilþrif með ÍBV þann tíma sem hann lék með liðinu. Abel er væntanlegur til Vestmannaeyja fljótlega á nýju ári og mun því taka þátt í undirbúningstímabilinu af fullum krafti. 

Fyrir í markinu hjá ÍBV er Guðjón Orri Sigurjónsson. Á síðasta keppnistímabili stóð Guðjón Orri á milli stanganna í 7 leikjum í deildar- og bikarkeppni í fjarveru David James og stóð sig gríðarlega vel. Guðjón Orri, sem er 21 árs, samdi við ÍBV til ársins 2015 fyrr á þessu ári. Þá er markmaðurinn Halldór Páll Geirsson sem er 19 ára, einnig í ÍBV.

Ljóst er að samkeppnin um markvarðarstöðuna hjá ÍBV verður hörð fyrir næsta keppnistímabil. 

Áfram ÍBV!

Óskar Örn Ólafsson
formaður knattspyrnudeildar ÍBV