Fótbolti - „Gleði, tár og titlar“

01.des.2010  16:04
Nú er að líta dagsins ljós heimildarmyndin „Gleði, tár og titlar“ um meistaralið ÍBV í knattspyrnu árin 1997 og 1998.  Myndin er unnin af Sighvati Jónssyni Eyjamanni og fjölmiðlamanni og er um 2 klst. að lengd.
Gleði, tár og titlar áranna 1997 og 1998 er efniviður myndarinnar. Hún er gerð að frumkvæði þeirra er mynduðu knattspyrnulið ÍBV þessi tvö ár, með það að markmiði að varðveita heimildir og minningar um góðan árangur.
Farið er yfir forsögu þess að ÍBV tókst að landa tveimur Íslandsmeistaratitlum og einum bikarmeistaratitli auk annarra verðlauna á tímabilunum tveimur. Þar koma margir leikmenn og þjálfarar við sögu, og síðast en ekki síst, fögn.
Eins og segir í upphafstexta myndarinnar þá er titli ekki landað á einu tímabili. Í þessari eigulegu heimildarmynd geturðu rifjað upp sigurvímuna og forsögu titla knattspyrnuliðs ÍBV á tíunda áratug tuttugustu aldar.
 
Upplag myndarinnar er væntanlegt til Eyja á næstu dögum og fer myndin þá strax í sölu.  Við biðjum bæjarbúa að taka vel á móti þeim sem munu ganga í hús og allur ágóði myndarinnar fer til eflingar knattspyrnunnar í Eyjum.
 
Hér meðfylgjandi er kynningarstikla til að gefa öllum áhugamönnum til kynna hvað myndin hefur að geyma og um leið að skapa eftirvæntingu og rifja upp ógleymanlegar stundir.
 
 
http://www.youtube.com/watch?v=-0CsVRvAnhY
 
f.h. undirbúningsnefndar
Ingi Sigurðsson