Fótbolti - Andy Mwesigwa að meika það

15.jan.2009  18:27

Síðustu vikur hefur knattspyrnumótið Cecafa Senior Challenge Cup í Afríku farið fram en Úganda var eitt tólf liða sem léku í mótinu. Andrew Mwesigwa, leikmaður ÍBV var fyrirliði úganska liðsins sem gerð sér lítið fyrir og vann mótið. Úganda lagði Kenýa í úrslitaleiknum 1:0 og tók Andy við sigurverðlaununum í leikslok við mikinn fögnuð úganskra knattspyrnuáhugamanna.

Tólf þjóðir frá mið- og austur-afríku tóku þátt í Cecafa Senior Challenge Cup en mótið er spilað á hverju ári. Úganda tefldi fram mjög ungu og óreyndu liði í mótinu, Andy var í raun langreyndasti leikmaður liðsins og fyrir vikið mæddi mikið á honum. Árangur úganska liðsins er fyrir vikið nokkuð athyglisverður og hefur Andy fengið mikið hrós fyrir frammistöðu sína.

Suður afríska liðið Orlando Pirates hefur þegar sent inn fyrirspurn í leikmanninn en þjálfari þar er hinn hollenski Rudolf Krol. Einnig hafa borist fyrirspurnir frá Póllandi, Skotlandi, Grikklandi og fleiri löndum.

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV var á staðnum að fylgjast með mótinu en hann segir að strax hafi borist fyrirspurning í þennan sterka leikmann sem spilað hefur með ÍBV í þrjú ár. „Andy spilaði frábærlega í mótinu og hefur fengið mikla athygli enda allir leikirnir sendir út í sjónvarpi. Hann var leiðtoginn í óreyndu liði, stýrði því eins og herforingi eins og sönnum fyrirliða sæmir. Ég er auðvitað mjög stolltur og ánægður fyrir hans hönd en fyrir vikið er hætt við því að við missum hann frá okkur,“ sagði Heimir