Fótbolti - VISA-bikar karla: FH-ingar mæta til Eyja á morgun

09.júl.2007  15:47
Á morgun munu Eyjamenn mæta Íslandsmeisturum FH í 16 liða úrslitum VISA bikarsins. FH-ingar voru dregnir fyrr upp úr hattinum og hefðu því átt að fá heimaleik en þar sem Eyjamenn leika í 1. deild þá fengu þeir sjálfkrafa heimaleikinn. ÍBV liðið hefur nú tapað tveimur leikjum í röð sem um leið voru fyrstu tapleikir liðsins í sumar. Liðið hefur verið að glíma við smá meiðsli frá byrjun móts en núna undanfarnar vikur hefur ástandið versnað til muna. Núna eru alls fjórir leikmenn meiddir, auk þess sem fleiri eru tæpir. Þetta er auðvitað alger martröð fyrir jafn þunnan hóp og ÍBV liðið hefur á að skipa. Bjarni Hólm meiddist á hné gegn Grindavík, spilaði ekki gegn Þrótti og óvíst hvort hann verði með á morgun. Andri Ólafs er ekki enn kominn í sitt besta form vegna meiðsla, Jonah Long er enn að glíma við nárameiðsli sem virðast ætla að verða erfiðari en reiknað var með fyrst. Hann hefur ekki spilað síðustu tvo leiki og mun ekki spila á morgun. Anton meiddist á mjöðm í leiknum gegn Þrótti og verður heldur ekki með á morgun. Einnig á Palli við einhver smá meiðsli að stríða og verður af þeim sökum ekki með á morgun.

Heimir sagði þennan bikarleik á morgun kannski ekki í neinu uppáhaldi hjá sér, hann væri í raun bara fyrir. ,,Þessi leikur kemur inní 10 leikja hrinu á 30 dögum. Liðið hefur því spilað leik á þriggja daga fresti sem er mjög mikið álag. Hópurinn er fámennur og álagið hefur sett strik í reikninginn. Miðað við hvernig við höfum verið að leika í síðustu leikjum erum við langt í frá tilbúnir í leik gegn Íslandsmeisturunum. Það er ljóst að Hafnfirðingar eru með betri leikmenn en við í öllum stöðum. Enda væru þeir þá búnir að kaupa okkar leikmenn ef við hefðum einhvern sem þeim langaði í. Þannig gengur þetta bara fyrir sig í dag. Það er staðreynd að við reyndum mikið að fá lánaða leikmenn sem voru fyrir utan liðið hjá Hafnfirðingum til að styrkja okkar lið fyrr í sumar en það tókst því miður ekki. En við munum að sjálfsögðu leggja okkur alla fram í þessum leik og verða Vestmannaeyjum til sóma."

Heimir sagðist ekki vera sáttur við úrslit síðustu leikja. ,,Úrslitin hafa ekki verið góð undanfarið og ég og leikmennirnir vitum það allra manna best. Hins vegar er ekki tími til að veltast um í kúknum því nú styttist í Íslandsmótinu og við verðum að rífa okkur upp. Á mánudag eigum við leik gegn Fjölni sem er í mínum huga mun mikilvægari leikur en þessi á morgun. Ég hræðist mun meira meiðsli og spjaldasöfnun en tap í þessum leik gegn FH."

Hann sagði samt gaman fyrir Eyjamenn að fá FH-ingana til Eyja. ,,Já, engin spurning, það verður gaman að fá besta lið Íslands til okkar og bera okkur saman við þá. Það verður okkar verkefni að verjast í þessum leik. Það hefur verið okkar styrkur til þessa, reyndar hefur varnarleikurinn aðeins hikstað í síðustu tveimur leikjum. Við sjáum bara til með útkomuna en til áminningar fyrir bjartsýna Eyjamenn þá hefur aðeins einu liði tekist að leggja Íslandsmeistarana í ár."

Eins og fyrr segir þá glíma Eyjamenn við mikil meiðsli. ,,Jonah, Palli, Anton og Bjarni Hólm verða ekki með gegn FH vegna meiðsla og fleiri eru tæpir. Vonandi verða Anton, Palli og Bjarni klárir gegn Fjölni á mánudag en meiðsli Jonah eru verri og óvíst hvenær og hvort hann nær sér að fullu. Andri og Andy ná vonandi að hrista af sér sín meiðsl fyrir leikinn gegn Hafnfirðingum," sagði Heimir að endingu.

Leikurinn hefst kl 19:15 á morgun og eru allir Eyjamenn, ungir sem aldnir, hvattir til að mæta og sjá besta lið landsins etja kappi við okkar menn