Fótbolti - Eyjamenn sterkir á heimavelli

24.jún.2005  15:02

Hafsteinn Gunnarsson skrifar frá Hásteinsvelli

Bæði lið töpuðuð í síðustu umferð og eyjamenn sérlega illa og forfallalistinn hjá þeim stækkar en þeir James Robinsson og Einar Hlöðver eru frá vegna meiðsla og síðan yfirgaf Magnús Már Lúðvíksson ÍBV óvænt í vikunni. Valsmenn byrjuðu mótið vel en lentu síðan í FH sem var of stór biti fyrir þá eins og aðra en þeir vilja væntanlega sanna það í þessum leik að þeir geti haldið í FH í toppbaráttunni.

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað og voru færin fá og langt á milli þeirra. Steingrímur komst í gegnum vörn Vals í byrjun leiks en skaut framhjá. Atli Sveinn Þórarinsson komst næstur Valsmanna að skora en Birkir varði góðan skalla hans vel. Það sem eftir var fyrri hálfleiks var mikill barningur en fátt sem gladdi augað. Bæði lið náðu sæmilegum sóknum en gekk illa að koma sér í færi. Guðmundur Benediktsson gerði sitt besti til að fá smá yl í áhorfendur með fallegri hjólhestaspyrnu rétt fyrir leikhlé. Valur spilaði með vindinn í bakið og virtist það henta þeim illa því þeir féllu í þá gryfju að reyna langar sendingar en nær undantekningalaust fóru þær í súginn. Eyjamenn lágu frekar aftarlega og reyndu að loka svæðum og tókst það ágætlega og gáfu þeir fá færi á sér en það var ljóst að bæði lið gátu bætt sinn leik.

Seinni hálfleikur byrjaði með hvelli, Matthew Platt átti góða sendingu á Ian Jeffs sem reyndi að lyfta boltanum yfir Kjartan Sturluson í markinu en hann náði að blaka boltanum frá en ekki lengra en til Steingríms Jóhannessonar sem þrumaði boltanum upp í þaknetið og eyjamenn komnir yfir. Eyjamenn fylltust miklum eldmóði við þetta mark og áttu nokkrar góðar sóknir og hefðu hæglega getað bætt við mörkum og til að mynda small boltinn í stöng Valsmanna eftir að Atli Sveinn Þórarinsson var í nauðvörn og hreinsaði. Valsmenn komust smátt og smátt inn í leikinn að nýju og áttu nokkrar ágætar sóknir en varnarmenn ÍBV voru vel vakandi og síðan greip sá “gamli” í markinu oft vel inn í leikinn. Eyjamenn voru þó hættulegir í skyndisóknum og hefðu alveg eins bætt við mörkum eins og Valur af jafna. Matthías Guðmundsson var þó eyjamönnum erfiður enda með afbrigðum fljótur drengurinn og átti hann hættulegustu færi Valsmanna og á síðustu mínútum leiksins komst hann í gegn en skaut rétt framhjá. Atli Jóhannsson reyndi við mark ársins en hann átti þrumskot utarlega í vítateig Valsmanna. Þrátt fyrir að Valsmenn pressuðu stíft síðustu mínútur leiksins og sendu miðvörð sinn í sóknina þá hélt vörn ÍBV út leikinn og fögnuðu þeir innilega í leikslok.

Þessi leikur hefði getað farið á hvorn vegin sem var en vörn eyjamanna hélt hreinu í fyrsta skiptið í sumar og hlýtur það að auka sjálfstraust þeirra. Birkir var mjög góður í markinu og greip oft vel inn í leikinn. Miðverðir eyjamanna voru þó bestu menn liðsins og átu upp allt sem Valsmenn hentu að þeim, bakverðirnir stóðu fyrir sínu. Miðja eyjamanna var góð og var mikil hreyfing á þeim og lokuðu þeir svæðum vel og voru síðan fljótir að færa sig fram á völlinn. Framlína eyjamanna samanstóð af Steingrími Jóhannessyni og er langt síðan undirritaður hefur séð hann svona sprækan. Valur er með hörku lið og er vörn þeirra sérlega sterk með öfluga miðverði og fljóta bakverði og með góðan markvörð þótt ekki hafi reynt mikið á hann í dag. Miðjan hjá Val olli nokkrum vonbrigðum og voru lykil leikmenn eins og Sigurbjörn Hreiðarsson ekki í takt við leikinn, Baldur Aðalsteinsson átti ágæta spretti og Matthías Guðmundsson einnig. Í heildina olli Valur nokkrum vonbrigðum sóknarlega í þessum leik en eyjavörnin var reyndar að spila sérlega vel. Það er spurning hvort þjálfari Valsmanna hefði betur eytt orku í að skamma sína menn en hann var mjög duglegur við að skammast út í dómara leiksins sem reyndar allir þjálfarar gera. En það sem vakti furðu var að hann var allan leikinn að skammast út í leikmenn ÍBV sem varla er hans starf og er í raun með öllu óviðeigandi að þjálfari sé skamma og bölvast í leikmenn andstæðingana. Í heildina séð unnu eyjamenn sanngjarnan sigur og er það orðið spurning hvort eyjamenn fari nú ekki að láta sömu menn spila útileikina og eru að spila heimaleikina.

Landsbankadeildin:

Hásteinsvöllur fimmtudaginn 23. júní 2005 kl. 21:00.

Lið: ÍBV-VALUR

Lokatölur : 1-0

Hálfleikstölur: 0-0

Aðstæður: Völlurinn í góðu standi

Veður: Strekkingsvindur úr vestri og frekar erfitt að spila fótbolta

Áhorfendur: 600-650

Skemmtanagildi á skalanum 1-10: 6

Maður leiksins: Bjarni Hólm Aðalsteinsson

Frammistaða dómara á skalanum 1-10: 6(Gylfi Orrason )



ÍBV

Byrjunarlið

1. Birkir Kristinsson (F)(M)

2. Páll Þorvaldur Hjarðar

6. Andri Ólafsson

7. Atli Jóhannsson

8. Ian David Jeffs

11. Steingrímur Jóhannesson

14. Bjarni Geir Viðarsson

15. Matthew Platt.

17. Adólf Sigurjónsson

20. Bjarni Hólm Aðalsteinsson

27. Heimir Snær Guðmundsson

Varamenn

9. Pétur Runólfsson

12. Hrafn Davíðsson ( M )

16. Bjarni Rúnar Einarsson

18. Andrew Sam

28. Pétur Óskar Sigurðsson

Mörk

47. mín. Steingrímur Jóhannesson ( 1-0 )

Skiptingar

75. mín. Pétur Óskar Sigurðsson fyrir Steingrím Jóhannesson

85. mín. Pétur Runólfsson fyrir Atla Jóhannsson.

Spjöld

9. mín Bjarni Geir Viðarsson gult

58. mín. Heimir Snær Guðmundsson, Rautt

86. mín. Bjarni Hólm Aðalsteinsson, gult

Hornspyrnur : 6

Valur

Byrjunarlið

1. Kjartan Sturluson (M)

2. Grétar Sigurfinnur Sigurðsson

3. Steinþór Gíslason

4. Stefán Helgi Jónsson

5. Atli Sveinn Þórarinsson

6. Sigþór Júlíusson

7. Sigurbjörn Örn Hreiðarsson (F)

11. Matthías Guðmundsson

16. Baldur Aðalsteinsson

21. Bjarni Ólafur Eiríksson

23. Guðmundur Benediktsson

Varamenn

8. Kristinn Ingi Lárusson

9. Garðar Bergmann Gunnlaugsson

10. Hálfdán Gíslason

12. Kristinn Geir Guðmundsson (M)

17. Sigurður Sæberg Þorsteinsson

Mörk

Skiptingar

52. mín. Garðar Bergmann Gunnlaugsson fyrir Sigþór Júlíusson

56. mín. Sigurður Sæberg Þorsteinsson fyrir Sigurbjörn Örn Hreiðarsson.

82. mín. Hálfdán Gíslason fyrir Guðmund Benediktsson

Spjöld

74. mín. Baldur Aðalsteinsson, gult

Hornspyrnur : 6