Fótbolti - KR-ingar mæta á Hásteinsvöll á sunnudag

10.jún.2005  11:13

N.k. sunnudag mæta KR-ingar á Hásteinsvöll og hefst leikur ÍBV og KR kl. 17. Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir bæði lið, sem telja sig hafa náð lakari árangri en ætlast mátti til af liðunum í upphafi móts. KR-ingar eru með 6 stig eftir 4 umferðir og það þykir ekki góður árangur hjá Magnúsi Gylfasyni og þeim Vesturbæingum. ÍBV er enn án stiga og við Eyjamenn ætlum okkur nú stærri hluti en láta hirða af okkur 3 stig í hverjum leiknum á fætur öðrum. Strákarnir gera sér grein fyrir þessu og hafa notað tímann vel í 12 daga hléinu sem nú stendur yfir.

Í leikmannahóp ÍBV hafa bæst við 3 nýjir leikmenn frá því í síðasta leik, en það eru þeir Heimir Snær Guðmundsson (FH), Pétur Óskar Sigurðsson (FH) og Jack Wanless (Sunderland). Auk þeirra vantaði Andrew Sam í leikinn gegn Grindavík og James Robinson hefur ekki enn getað tekið þátt í Landsbankadeildinni vegna meiðsla, en hann er farinn að æfa af krafti og vonandi getur hann farið að taka þátt í baráttunni í næstu leikjum.

Það skiptir miklu máli að fá góðan stuðning frá Eyjamönnum n.k. sunnudag og eru allir sem vettlingi geta valdið, hvattir til að láta sjá sig á Hásteinsvelli.