Fótbolti - ÍBV-Breiðablik - Edda Garðarsdóttir í viðtali

30.maí.2005  12:24

Edda Garðarsdóttir skipti yfir í Breiðablik nú í vetur eftir að hafa spilað með KR allan sinn feril í meistaraflokki. Hún er ein af reyndustu landsliðskonum Íslands þrátt fyrir að vera einungis 25 ára gömul, en hún hefur verið í eldlínunni í deildinni hér heima mörg undanfarin ár auk þess að hafa spilað í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Edda er þekkt fyrir mikla baráttu á leikvellinum og verður leikurinn á morgun gegn ÍBV eflaust engin undantekning. Edda er hér í spjalli við okkur á www.ibv.is.

Fullt nafn og aldur : Edda Garðarsdóttir, 25 ára

Hjúskaparstaða : Á föstu

Atvinna : Þjónustufulltrúi í Landsbankanum

Mottó í lífinu : Ef þú smælar framan í heiminn, smælar heimurinn framan í þig.

Ferill : Ég byrjaði í Þrótti Rvk. þegar ég var 9 ára með strákunum, fór svo í KR þegar ég var 11 ára, svo er ég í Blikunum núna. Fór út í háskóla í USA í 4 ár og var í boltanum þar. Ég hef haft marga mjög góða þjálfara í gegnum tíðina, eftirminnilegustu eru Ragna Lóa, Jóna, Vanda Sig, Helena og Jörundur Áki.

Hver er leikstaðan þín á vellinum : Ég er miðjujaxl, og kem einstaka sinnum aftur í vörnina. Það á bara enn eftir að uppgötva mig sem senter...

Fjöldi landsleikja : 32

Gælunafn innan liðsins : Þau eru nú nokkur. helst “Björgvins”. Veit ekki alveg af hverju... tala kannski svona hátt og mikið.

Besti leikmaður sem þú hefur spilað með : Olga, Laufey, Ásthildur, Gulla, Þóra...

Erfiðasti andstæðingur : Ég sjálf

Hver er fyrirmynd þín í boltanum : Rúnar Kristins var alltaf í uppáhaldi, sem og Ásthildur þegar ég var að koma upp í mfl.

Efnilegasti leikmaðurinn í deildinni að þínu mati : Greta Mjöll og Guðrún Erla Blikar, Margrét KR-ingur, Sandra Stjörnunni af þeim sem ég þekki

Skemmtilegasti mótherjinn ? Dóran með skærin frægu... svo bara allir sem berjast allan tímann, t.d. Laufey Ólafs.

Uppáhaldsleikmaður og lið í fótboltanum : Liverpool... Roy Keane, Patrick Vieira, Zinedine Zidane og Steven Gerrard eru í uppáhaldi

Hvað finnst þér leiðinlegast að gera á æfingu ? Að standa lengi (skuggabolti)... það á að vera action, hægt að funda utan æfinga.

Hvernig finnst þér best að pirra andstæðinginn ? Hmm... er ekkert mikið að pæla í því, sh$# just happens

Sætasti sigurinn : Fyrsti Stóri titillinn, KR 1997 Íslandsmeistarar, svo 3 -0 á móti Spáni á Laugardalsvelli með Landsliðinu :)

Mestu vonbrigðin : Bara að tapa... ég haaaata að tapa.

Með hvaða liði myndir þú aldrei spila ? Fordómalaus í þessum málum...

Áttu einhver gæludýr ? Nei ekki enn

Hvaða tónlist hlustar þú helst á ? Bara allt... ekki mikið í klassíkinni samt

Uppáhalds bíómynd : Núna er það Eulogy

Uppáhaldsmatur : Fiskur hjá mömmu minni er það besta í heimi.

Uppáhalds drykkur : Diet Appelsín og VATN

Uppáhalds leikari : Hin undursamlega Angelina Jolie

Uppáhalds sjónvarpsþáttur : The L-Word og Fóstbræður

Áhugamál utan fótboltans : Trompetinn minn, líkamsrækt, skvass, sund, línó, snjóbretti, útivist - bara öll hreyfing nema einhverjar svona með listrænu ívafi.

Er eitthvað á döfinni hjá þér varðandi atvinnumennsku ? Ég fór út í vor og fékk tilboð að koma og spila með Fortuna í DK, en ég er bara búin að vera svo mikið að heiman undanfarin ár. Mig dauðlangar samt út til Svíþjóðar, Noregs eða Danmerkur bara einhvern tíman á næstu 2 – 3 árum. Fer eftir því hvernig þetta fer allt saman með námið mitt t.d hvenær ég get klárað.

Hvernig líst þér á deildina í sumar ? Blikar, KR, ÍBV og Valur eru í toppbaráttunni. Stjarnan og Keflavík um miðja deild Hin eiga eftir að berjast um að stela stigum... held ég, annars er ekkert 100% í þessum bolta, sem betur fer.

Hvernig finnst þér staða fótboltans á Íslandi ? Vantar fleiri sterka leikmenn hingað heim, sést á því að erlendum leikmönnum er sífellt að fjölga, sem verður gott fyrir boltann hér til lengri tíma litið. Kvennaboltinn er búinn að vera á hraðri uppleið undanfarin ár og þessi þróun mun halda áfram ef vel er haldið utan um barna- og unglingastarfið hjá félagsliðunum. Stelpurnar eru byrjaðir að æfa mun fyrr, og fá betra aðhald. Samt finnst mér að það ætti að koma inn einhvers konar afreksprógramm fyrir krakka sem skara fram úr í yngri flokkunum, en spurningin er alltaf “Hver myndi vilja fjármagna það?”. Svo finnst mér og fleirum mikil nauðsyn að fá aðhald fyrir stelpur sem eru að koma upp í U-21 og A landsliði kvenna, vantar að breyta því hvernig er haldið utan um þetta allt saman. Umfjöllun fjölmiðla um kvennaíþróttir litast náttúrulega af karlrembunni sem er ríkjandi hérna í íþróttaheiminum, alltaf verið að telja manni trú um að kvennaboltinn sé svo miklu síðri en karlaboltinn, held að þetta tímabil í ár ætti aðeins að vera öðruvísi en undanfarin ár, meira spennandi en áður. En til að landsliðið verði sterkara ættum við allar að skoða það að fara út í sterkustu deildirnar á Norðurlöndunum, bara kalt mat en mín skoðun.

Ertu ánægð með þróunina hjá landsliðinu undanfarin misseri ? Já og nei. Vantar fleiri æfingar og fleiri æfingaleiki, betra aðhald fyrir leikmenn - meiri alvöru innan KSÍ, betra samstarf milli klúbba og KSÍ. Leikmenn og þjálfarar eru allir af vilja gerðir. T.d. að fara á æfingamót þar sem sterk lið taka þátt, þar sem landsliðið kemur saman í lengri tíma.

Hvernig líst þér á leikinn gegn ÍBV ? Mér finnst alltaf gaman að koma til Eyja og spila, útaf stemmingunni á vellinum. Ég veit nú samt minna um leikmennina í Eyjaliðinu núna, vegna þess að Olga er meidd og nýjar stelpur í hópnum. Þetta verður hörkuleikur og baráttan verður í algleymingi.

Leikurinn á morgun hefst klukkan 20:00 á Hásteinsvelli. Áhorfendur eru hvattir til að mæta á völlinn og styðja ÍBV til sigurs, en von er á fjölmörgum Blikum til Eyja og því nauðsynlegt að Eyjamenn fjölmenni á völlinn. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur í toppbaráttunni og góður stuðningur getur skipt sköpum - ÁFRAM ÍBV !!