Fótbolti - Við verðum með

22.mar.2005  12:55
ÍBV veitt keppnisleyfi í efstu deild karla
Knattspyrnudeild karla hefur fengið samþykkt gögn sín fyrir Leyfisráði KSÍ og hefur okkur þar með verið veitt keppnisleyfi í Landsbankadeildinni 2005. Það er okkur að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að þau gögn sem við lögðum fram skuli hafa uppfyllt kröfur KSÍ og verið samþykkt af Lúvík Georgssyni og félögum hans í Leyfisráðinu.  Við fáum þó ávítur fyrir menntun þjálfara, í einum flokki. Félagið hefur þó stigið nokkuð stór skref síðastliðið rúmt ár í þjálfaramenntun og eru þau mál óðum að komast í farsælan jarðveg og ættu að vera komin á beinu brautina á næsta ári ef allt gengur að óskum. En þó þurfa menn að fara að huga að ráðningu yfirþjálfara í fullt starf fyrir fótboltann, því það er eitt af  þeim atriðum sem þarf að hafa í lagi, og auðvitað áttum við að vera búin að koma þessum hlutum í lag fyrir nokkrum árum. Það er ekki hægt að ráða bara hvern sem er sem yfirþjálfara því viðkomandi þarf að hafa til þess fullgilda þjálfaramenntun frá viðkomandi knattspyrnusambandi, sem eðlilegt er.
 
Svo eru það málin er tengjast vallaraðstæðum. Stúka og afgirt keppnissvæði og svoleiðis hlutir. Þar erum við að renna út á undanþágu og því kominn tími til að hendast í að klára þau mál. Ég hef reyndar þá trú að ef menn hefðu ekki verið í þessum eilífu pólitísku skyndilausnum sem þjakað hafa þetta bæjarfélag þá hefðum við verið komin með lausnirnar varðandi stúku t.d. og því ekki þurft að hafa neinar áhyggjur en því miður standa málin ekki þannig. Það er búið að henda milljónum út um gluggann í þessum reddingum því miður. Nú þarf að bretta upp ermarnar og vanda til verka og leysa þetta í eitt skipti fyrir öll og það gerist ekki nema að menn setjist niður og ræði þetta af fullri alvöru og einurð það er krystaltært.
 
Menn geta sett út á Leyfiskerfið hægri vinstri það er ekki málið en því má ekki gleyma að þetta er gott aðhaldskerfi á mjög margan hátt t.d. fjárhagslega og þjálfunarfræðilega. Á báðum þeim sviðum er þetta hin besta hjálpartæki og ég held að menn ættu að taka upp svipað kerfi í öðrum greinum varðandi þessa 2 þætti.
 
Þetta er meðal annars það sem farið er fram á í leyfiskerfinu:
• Samþykkt áætlun um uppeldisstarf (þjálfun) frá 9 ára aldri  (Hérna er til áætlun sem menn þurfa að fylgja harðar eftir)
• Fagmennska í stjórnun félags og þjálfun leikmanna (hæfir starfsmenn)  (Þetta erum við að nálgast ófluga)
• Aðild að KSÍ (lagaumhverfi)  - (Þetta er í góðu lagi)
• Fullbúinn leikvangur með stúku fyrir áhorfendur  (hér er undanþága til 2007)
• Traust skipulag fjármála (endurskoðaður ársreikningur)  (Okkur hefur tekist að fanga þetta ágætlega og er þetta að verða alveg til fyrirmyndar)
 
Fyrir áhugasama er rétt að benda á heimasíðu KSÍ, www.ksi.is , en þar er sérvefur um leyfiskerfið fyrir áhugasama, efst fyrir miðju.. Leyfisstjóri KSÍ er enginn annar en Eyjapeyjinn og Kiss-aðdáandinn Ómar Smárason