Handbolti - Toppslagur í kvöld

28.jan.2005  17:23

Í kvöld mun kvennalið ÍBV taka á móti toppliði Hauka í DHL deild kvenna.  Staðan í deildinni er þannig að Haukar eru í efsta sæti með 26 stig en ÍBV í öðru með 20.  Eyjastúlkur fóru illa að ráði sínu í síðasta heimaleik gegn Stjörnunni þegar þær töpuðu óvænt en stelpurnar eru sjálfsagt ólmar í að bæta fyrir ófarirnar. 

Síðast þegar liðin mættust í Eyjum, 3. desember síðastliðið í bikarkeppninni þá voru Eyjastúlkur ekki í teljandi vandræðum með Hauka og unnu átta marka sigur, 33-25.  Alfreð Finnsson, þjálfari ÍBV segist vona að sínir leikmenn mæti með sama hugarfar og í þeim leik.  "Ég fann það alveg í bikarleiknum hvað stelpurnar voru einbeittar.  Mér fannst einhvern veginn aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti þá og vona svo sannarlega að ég fái sömu tilfinninguna á föstudaginn," sagði Alfreð þegar Fréttir slógu á þráðinn til hans.


 "Það verður hins vegar að segjast alveg eins og er að baráttan um deildarmeistaratitilinn er nánast búin, það þyrfti allt að ganga okkur í hag en auðvitað munum við berjast fyrir þessum titli þar til yfir líkur.  Ég trúi ekki öðru en að Haukar hljóti að tapa einhverjum leikjum og eigum við ekki bara að segja að fyrsti tapleikur þeirra í deildinni komi gegn okkur."
En hvað er það sem gerir Haukana svona sterka?
"Það er í raun ekkert eitt sem gerir það að verkum að þær hafa ekki tapað leik í deildinni.  Þær eru með sterka vörn, tvo góða markmenn og frábært sóknarlið þannig að það er erfitt að finna veikan hlekk á liðinu.  Þó eru þeir til og ég held að Haukar séu ekki með það yfirburðarlið eins og staðan í deildinni segir til um.  Við eigum alvega að geta unnið þær."
Hvernig fer leikurinn á föstudaginn?
"Það er erfitt að segja til um það.  Ég held að geta liðanna skipti ekki öllu máli, við höfum spilað eina fjóra leiki gegn þeim þannig að leikmenn liðanna eru farnir að þekkja andstæðinginn nokkuð vel.  Mín tilfinning er að þetta komi til með að snúast um hugarfar og dagsform.  En með góðum stuðningi Eyjamanna eigum við mikla möguleika gegn Haukum og auðvitað tippa ég á okkar sigur, 27-23," sagði Alfreð að lokum.
 
Þessi frétt er tekin af www.eyjafrettir.is