Fótbolti - Mar­in­ella Panayiotou til ÍBV

26.apr.2023  17:00

Kýpverska knattspyrnukonan Marinella Panayiotou hefur skrifað undir samning við ÍBV út keppnistímabilið 2023.

Marinella hefur leikið víða í Evrópu en flesta leiki á hún á Kýpur þar sem hún hefur leikið með tveimur liðum og skorað samtals 125 mörk í 117 leikjum.

Síðast var Marinella á samningi hjá ítalska liðinu ACF Arezzo en áður hjá albanska liðinu Vllaznia Shkoder er liðið lék í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á leiktíðinni sem nú er enn í gangi.

Marinella, sem er fædd árið 1995, getur leikið flestar stöðurnar í sókninni en félagið bindur vonir við að hún komi til með að styrkja leikmannahóp liðsins fyrir átökin í Bestu deildinni í sumar.

ÍBV fór vel af stað í Bestu deildinni í gær er liðið vann opnunarleikinn gegn Selfossi.