Handbolti - Ásgeir Snær lengi frá vegna meiðsla

02.okt.2020  11:12

Í leiknum gegn Val síðastliðinn laugardag varð Ásgeir Snær fyrir meiðslum, þar sem hann lenti harkalega í gólfinu eftir hrindingu. Ásgeir gat ekki leikið meira með í leiknum og fór til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Í ljós kom að Ásgeir hafði farið úr axlarlið en hann hefur svo farið til nánari skoðunar hjá sérfræðingi.

Það er ljóst að afleiðingarnar eru mjög alvarlegar. Það liggur nú fyrir að Ásgeir þarf að fara í aðgerð vegna þessarra meiðsla og verður frá keppni í a.m.k. 4-5 mánuði. Þetta er mikið áfall fyrir alla, en ekki síst Ásgeir sjálfan sem var kominn á fullt með liðinu eftir að hafa komið til liðs við ÍBV í sumar.

Við óskum Ásgeiri Snæ góðs gengis í vinnunni sem er framundan og við erum sannfærð um að hann komi ennþá sterkari til baka eftir meiðslin.