Undirbúningur Þjóðhátíðar 2019

16.júl.2019  20:52
Mikið er að gerast þessa dagana í undirbúningi Þjóðhátíðar en í gær var byrjað að setja upp hátíðina í Herjólfsdal og eru sjálfboðaliðar hvattir til að mæta kl. 20:00 á kvöldin með skrúfvél og góða skapið. Í dag opnaði fyrir skráningu á úthlutun lóða í Herjólfsdal og hefur fyrsti dagurinn gengið mjög vel fyrir sig.
 
Við höfum verið í vandræðum með að tryggja öryggi gangandi vegfarenda á álagstímum við hliðið og ætlum því að halda áfram að bjóða upp á sætaferðir frá Íþróttahúsinu á daginn en einnig ætlum við að breyta fyrirkomulaginu með bílapassana, en nú fá þeir sem þurfa bætt aðgengi að Dalnum hjá okkur sérstök armbönd. Einnig er verið að skoða með að loka fyrir umferð í og úr dalnum frá kl. 23:45 til 00:45 föstudag, laugardag og sunnudag en við munum gefa frekari upplýsingar um það síðar.
 
Í fyrra var mikið öngþveiti á föstudagskvöldinu í kringum miðasöluna hjá okkur og ætlum við að reyna að létta á því álagi með því að vera með opið frá kl. 12:00 á fimmtudaginn 1. ágúst á Básaskersbryggju í Hafnarhúsinu. Opið verður þar til kl. 22:00 um kvöldið og hvetjum við alla til að verða sér út um armbönd þann dag.
 
Í Dalnum verður starfræktur ∅lgarður þar sem við verðum með trúbador frá kl. 19:00-21:00 en garður þessi verður við litla pallinn þar sem við höfum verið með litla bjórtjaldið. Erum við með þessu að mæta þörfum gesta okkar þar sem dagskránni í bænum lýkur um kvöldmat en dagskráin á Brekkusviði hefst ekki fyrr en kl. 21:00
 
Þjóðhátíðarnefnd