Fótbolti - Strákarnir á Oliva Nova

05.apr.2012  22:24
 Strákarnir í meistaraflokki eru heldur betur að taka á því á Spáni. Hannes Gústafsson, liðsstjóri, sendi okkur pistil þaðan.
Hér hefur veðrið ekki leikið við okkur, frekar skýjað og töluverð rigning með þrumum og tilheyrandi hræðslu hjá sumum leikmönnum. Æfingar hafa hinsvegar gengið vel og fínn mórall í hópnum. 2 æfingar voru í gær, fimmtudag og var vel tekið á. Enduðum æfinguna á skalltennis, tveir saman í liði og sigurvegarar urðu Brynjar og Þórarinn Ingi. Eru þeir agalega ánægðir með sig þessa daganna og ekki við þá talandi. Hummmhhhhhh.. finnst okkur hinum. Fórum á Golf-Restaurant í fyrradag og horfðum Barcelona – AC milan og var stemmningin frábær. Settum af stað smá „bet“ og endaði það með því að Brynjar Gauti spáði til um rétt úrslit og hirti 80 evru pott, sem hann að sjálfsögðu þurfti svo að borga skatt af og á nú 40 eftir. Hann vill helst ekki koma heim með þennan heim með þennan aur því hann veit að Steingrímur og Jóhanna taka örugglega helming af rest og þá á hann bara 20 eftir. Nú Christian Olsen, hinn danski kemur ágætlega út og er að skora af og til, þess á milli sem hann vælir yfir bjórleysi og hefur aldrei kynnst öðrum eins þurrki og aga. Enda Danir mikil bjórþjóð.
Gunnar Már fékk högg á hnéð og hefur lítið beitt sér síðustu daga. Nú Eyþór Helgi tognaði aftan í læri á móti Fjölni, en ekki alvarlega að mati Valgeirs sjúkraþjálfara, sem hefur staðið sig frábærlega í þessari ferð. Aðrir eru nokkuð heilir en með þreytta fætur. Í dag föstudag æfum við um morguninn klukkan hálf 10 , tökum hádegismat, svo hvíld og eigum svo leik við Víking Ólafsvík klukkan 14:00 en þeir eru einnig hér í æfingaferð. Jæja kæru vinir, þetta er gott í bili, hlökkum til að komast heim í sólina á eyjuna fögru.

Áfram ÍBV – Alltaf allstaðar. 
Baráttukveðjur,

Strákarnir ykkar.