Handbolti - Bikarúrslit - ÍBV-Haukar á laugardag kl 13:15

24.feb.2006  11:31

Einn fyrir alla - allir fyrir einn !

Á laugardaginn klukkan 13:15 mætast ÍBV og Haukar í bikarúrslitaleik kvenna í handknattleik. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll en þetta er í fjórða sinn á síðustu 6 árum sem þessi lið mætast í bikarúrslitaleik. Liðin hafa jafnmörg stig í deildinni og hafa unnið sitthvorn leikinn í vetur og því má búast við spennandi og skemmtilegum leik.

Stelpurnar hafa undirbúið sig vel fyrir þennan leik og ætla sér ekkert annað en sigur og þær treysta á stuðningsmenn ÍBV, alla þá sem telja sig vera Eyjamenn, að mæta á leikinn á laugardaginn því þær þurfa svo sannarlega á góðum stuðningi að halda gegn hinu gríðarlega sterka Haukaliði. Nokkrir leikmenn liðsins hafa átt í smávægilegum meiðslum en allir leikmenn verða klárir í slaginn á laugardaginn.

Flestir telja Hauka vera sigurstranglegra liðið fyrir leikinn á laugardaginn. Þær unnu jú síðasta leik liðanna og hafa haldið öllum sínum mannskap í vetur á meðan flísast hefur úr hópnum hjá stelpunum okkar. En möguleik okkar stelpna er svo sannarlega fyrir hendi og þær munu koma fullar sjálfstrausts til leiks. En eins og áður segir þá skiptir stuðningur áhorfenda gríðarlega miklu máli og viljum við hvetja Eyjamenn til að fjölmenna í Laugardalshöllina á laugardaginn kl 13:15 og styðja stelpurnar til sigurs - ÁFRAM ÍBV !