Handbolti - Davíð Þór hverfur á braut

13.okt.2005  03:46

Takk fyrir samstarfið Davíð

"Stórskyttan Davíð Þór Óskarsson í ÍBV er hættur að leika með liðinu. Davíð Þór er búinn að fá inngöngu í lögregluskólann eftir áramót og flytur þá til Reykjavíkur en ákvað þangað til að fara á sjóinn. Hann fór sem háseti um borð í Huginn VE í gærkvöldi.

Er þetta mikið áfall fyrir Eyjaliðið en Davíð hefur verið að leika lykilhlutverk í liði ÍBV í upphafi móts. Kristinn Guðmundsson þjálfari ÍBV sagði þetta vissulega slæm tíðindi fyrir liðið. “Það er nú einu sinni þannig að Davíð hefur verið að sækjast eftir því að komast í lögregluskólann og ánægjulegt fyrir hann og hans framtíð þá hefur hann fengið inngöngu um áramótin og ætlaði sér að vera með okkur þangað til. Hann hefur aftur á móti verið að leita sér að vinnu í Eyjum og það hefur ekki gengið nógu vel. Hann fékk síðan pláss á sjó og tók því eðlilega.” Kristinn sagði að auðvitað væri bagalegt fyrir liðið. “Við erum ekkert með gríðarlega stóran hóp og Davíð hefur verið að skila því hlutverki sem við ætluðumst til af honum.” Kristinn sagðist ekki vita hvað stjórnin ætli sér að gera varðandi það að fá leikmann í stað Davíðs. “Það lokar fyrir félagsskipti 1. nóvember og ég veit ekki hvað stjórnin fær áorkað þangað til. Ég væri alveg til í að fá styrkingu en ég verð að einbeita mér að þeim hóp sem ég hef og hlúa að honum og ef það kemur nýr leikmaður, þá er það bara bónus.”" Tekið af www.eyjafrettir.is

Við viljum þakka Davíð fyrir þau ár sem hann hefur spilað með ÍBV. Hann hefur verið vaxandi leikmaður og hefur aðeins vantað lítið upp á að breytast úr góðum leikmanni í mjög góðan leikmann. Í starfi félagsins utan vallar hefur drengurinn verið mjög duglegur og mega margir taka hann sér til fyrirmyndar þar og eru því miður allt of fáir sem eru tilbúnir að hjálpa félagi sínu eins og Davíð hefur gert frá barnæsku. Enda kemur hann af einni duglegustu ÍBV fjölskyldunni sem hefur lagt dag og nótt í starf félagsins allt sitt líf.

Takk fyrir okkur Davíð.