Fótbolti - Útbreiðsla "fagnanna" nær nýjum hæðum

05.okt.2005  09:58

Leikmenn ÍBV gerðu garðinn frægan fyrir 10 árum, eða sumarið 1995, með því að fagna mörkum sínum með alls kyns leikþáttum og spaugi. Víst má vera að andstæðingunum hafi nú ekki verið eins skemmt og okkur Eyjamönnum þegar Tryggvi "Guð", Leifur Geir, Ívar Bjarklind og fleiri léku listir sínar eftir að liðið hafði skorað.

Leikmenn ríkasta félagsliðs heims, Real Madrid, hafa nú 10 árum síðar tekið upp þennan skemmtilega sið og leika kakkalakka og sjimpansa og slá upp léttu gríni þegar þeir hafa skorað. Hrifning andstæðingana hefur ekki verið meiri en svo að forseti Alaves sagðist myndu setja leikmenn sína í geðrannsókn vegna slíks háttalags og gagnrýnin hefur gengið svo langt að Ivan Helguera, leikmaður Real, hefur gagnrýnt leikmenn sína fyrir uppátækið og finnst þeir móðga andstæðinginn.

Nú er það spurning hvort þessu verði að hætta vegna gagnrýni, eða að þeir sem ánægju hafa af, þ.e. áhorfendur, fái að njóta þess að sjá bestu knattspyrnumenn heimsins slá á létta strengi.

Allavega rifjar uppátæki þeirra Madridar-manna upp afar skemmtilega tíma á Hásteinsvelli.