Handbolti - Hvað sögðu þjálfararnir í leikslok?

29.sep.2005  11:09

Við náðum stuttum viðtölum við þjálfara ÍBV og Víkings/Fjölnis eftir leikinn í gær, fyrst heyrðum við í Kristni Guðmundssyni aðstoðarþjálfara ÍBV, “ Þetta hafðist með herkjum. Við sýndum á köflum að við getum spilað sem lið en náðum ekki að hrista þá af okkur. Liðið hefur lítið sjálfstraust og nær ekki að halda haus. Sigurinn var þó aldrei í hættu, við áttum að vinna leikinn með 6-9 mörkum en lítið sjálfstraust kom í veg fyrir að sigurinn varð ekki stærri. Við þurfum að fara yfir málin á næstu dögum og skoða framhaldið, það var margt jákvætt við leikinn í kvöld og greinilegt að það býr miklu meira í þessu liði en það hefur sýnt í undanförnum leikjum”.

Gunnar Magnússon þjálfari Víkings/Fjölnis gat ekki leynt vonbrigðum sínum í leikslok en hann er bjartsýnn á framhaldið, “Við fórum illa með færin í kvöld, við sköpuðum okkur endalaus færi en Bjöggi var okkur erfiður, 3 víti og hátt í 20 dauðafæri fóru forgörðum og það dugar ekki til sigurs. Við höfum verið óheppnir með meiðsli en erum með heilann her af ungum efnilegum leikmönnum. Þetta verður erfitt í vetur en það er margt jákvætt við leik liðsins og þrátt fyrir að við höfum ekki náð að sigra ennþá þá er það bara tímaspursmál hvenær fyrstu stigin koma í hús”.

Hægt er að sjá viðtölin við þjálfarana á Halli Tíví einnig er þar viðtal við Björgvin Pál Gústavsson sem var tekið eftir leikinn í gær.